135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig tekur það sárt að Samfylkingin skuli í dag kalla sjúklingaskattana smáatriði. Það er ekki smáatriði fyrir þá, virðulegur forseti, sem þurfa að slíta upp budduna þegar þeir eru komnir inn á heilsugæslustöðvarnar að leita sér lækninga.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að samkvæmt fjárlögum síðasta árs var áætlað að sértekjur í heilbrigðiskerfinu — ég hygg að það sé Samfylkingin fyrrverandi, undanfari Samfylkingarinnar, sem á þetta nafn, sjúklingaskattar — áttu að nema 2,6% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á því ári sem nú er að líða. Stefnubreytingin sem er að finna í þessu frumvarpi er sú að nú eiga sértekjur á næsta ári að dekka 3,3% af útgjöldum ráðuneytisins. Þær hafa eins og ég sagði hækkað um 30% meðan útgjöld ráðuneytisins hafa hækkað um 10.