135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:35]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan blanda mér í þessa umræðu um fjárlög ríkisins sem er alltaf mikil umræða og aðalumfjöllunarefni þingsins á haustþingi. Ég viðurkenni að margt af því sem kemur fram í þessu frumvarpi er kunnuglegt og mál sem voru til umfjöllunar í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Ég er því ekki komin hér til að gagnrýna þetta allt saman heldur fyrst og fremst til að leggja nokkur orð inn í umræðuna. Það sem ég vil gjarnan segja í upphafi er að fjárlagafrumvarpið er mikil skilaboð út í samfélagið. Þess vegna hefur það verið reynsla mín að þar sé vandað til verks og reynt á tímum þenslu að búa þetta frumvarp þannig úr garði að það auki a.m.k. ekki á þensluna og sé frekar aðhaldsskilaboð út í samfélag sem er nokkuð bólgið.

Ég er ekki viss um að hægt sé að segja um þetta frumvarp að það gefi sérstaklega góð skilaboð út í samfélagið vegna þess að þar eru gríðarlega mikil útgjöld og aukning útgjalda. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í upphafi og gerði það skyldu sinnar vegna, held ég, að nýr samstarfsflokkur og þessi nýja ríkisstjórn setti dálítið mikið mark á þetta frumvarp. Vel má vera að svo sé en ég hef kannski ekki alveg tekið eftir hvar það ætti helst að vera. Sú spurning sem ég vil leyfa mér að koma fram með er hvort hæstv. fjármálaráðherra sé ekki sammála mér að það hefði þurft að sýna meira aðhald í útgjöldum, ekki síst þar sem ég heyrði hann segja nýlega í afmæli Viðskiptaráðs að hann teldi mjög áhugavert og æskilegt að draga úr umsvifum ríkisins svona eins og um fimmtung og taldi að það væri ekki mjög erfitt en alltaf fer þetta frekar á hinn veginn.

Nú er ég ekki talsmaður þess að við förum út í allt of mikinn einkarekstur, eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu, af því að ég er ekki búin að sjá að það sparist við það fjármagn en það er eitthvað sem við ætlum að sjálfsögðu að skoða í nefndinni. Útgjaldaaukningin er talsvert mikil og ég sé það fyrir mér að Samfylkingin hafi verið svolítið eins og fíll í leikfangabúð þegar hún komst í alla þessa peninga sem fyrrverandi ríkisstjórn er búin að búa til og ekki síst Framsóknarflokkurinn en ég tel að það hefði verið hlutverk hæstv. fjármálaráðherra að halda svolítið betur utan um budduna. Mér finnst í raun að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hafi sýnt meira aðhald í ríkisfjármálum. Nú er hann í þeirri miklu stöðu að vera forsætisráðherra og hefði að mínu mati átt að halda þeirri stefnu sem hann sýndi í fjármálaráðuneytinu en einhvern veginn er þetta allt á annan veg og kannski vantar Framsóknarflokkinn til þess að halda þessu öllu í jafnvægi en það á eftir að koma í ljós.

Mér finnst þessi samanburður, þegar verið er að tala um að sé 8% aukning á útgjöldum, ekki vera rétti samanburðurinn, því að það er í rauninni ekki hægt að bera þetta fjárlagafrumvarp saman við annað en þá fjárlagafrumvarpið sem dreift var hér fyrir ári síðan því að auðvitað á eftir að bætast eitthvað við í meðförum fjárlaganefndar og síðan koma fjáraukalög o.s.frv. o.s.frv. Við skulum bara sjá til hvernig þetta gengur en útgjöldin eru mikil. Ég man ekki betur þegar ég var að fjalla um fjárlög í upphafi míns ferils en að þá höfum við verið að tala um 100 milljarða í útgjöldum en nú eru þeir 461 og fara sjálfsagt hátt í 500 þegar meiri hlutinn í fjárlaganefnd kemur fram með sínar tillögur.

Hæstv. fjármálaráðherra hafði nokkuð mörg orð um átak í sambandi við ábyrgð og aðhald. Þá veltir maður því fyrir sér hvort hann sé rétti maðurinn, hvort hann eigi ekki svolítið erfitt með að tala um þessi mál eftir þá reynslu sem við höfum af því sumri sem er nýliðið og þá er ég að tala um Grímseyjarferjuna. Það að fjármálaráðherra sýni fordæmi sem hann gerði þar er vissulega ekki til þess fallið að gefa góð skilaboð út í samfélagið og ekki út í þær ríkisstofnanir sem hann er nú að tala til og leggja áherslu á að haldi sér innan marka. Hann segir að ekki sé heimilt að ráðstafa meiru en heimild er fyrir. Þetta voru hans orð. Við skulum sjá til hvernig það gengur en hæstv. ráðherra lenti vissulega í miklum brotsjó í því máli sem kallað hefur verið Grímseyjarferjumál og við eigum örugglega eftir að ræða frekar á hv. Alþingi.

Staðreyndin er sú að heildarútgjöld ríkissjóðs hækka næstu missirin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, verða 34% árið 2008 og 2009 og þetta hlutfall hefur ekki verið svona hátt alveg síðan 1993. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Ef hæstv. fjármálaráðherra ætlar að spyrja mig hvar ég sé tilbúin til að lækka útgjöld og draga úr framlögum þá ætla ég ekki að svara því. Ég ætla bara að segja það strax að ég ætla ekki að svara því hér, enda er það ekki sanngjörn spurning. Það sem búið er að sýna á annað borð í fjárlagafrumvarpinu sem útgjöld, og flest af því eru bestu mál, er ekki svo auðvelt fyrir stjórnarandstöðuna að segja að megi fara út, þetta eða hitt. Reynsla mín er sú að ekki fær allt blessun af hálfu fjármálaráðuneytis og forustu í ríkisstjórn en það er kannski orðinn annar svipur á því öllu saman núna.

Það sem hæstv. ráðherra talaði um sem ástæðu þess að samfélagið er í þeirri góðu stöðu sem það er í dag og að ríkissjóður stendur svo vel sem raun ber vitni var einkavæðingin og skattalækkanir fyrirtækja. Þetta er alveg rétt og ég er sammála honum um það að einkavæðingin og sala bankanna hefur haft alveg gríðarleg áhrif á efnahag okkar og útrás og fjölgun í hálaunastörfum. Það er þess vegna aldrei of oft sagt að sala bankanna var gríðarlega mikilvæg á þeim tíma sem hún fór fram og skipti bókstaflega sköpum hvað varðar framhaldið.

Síðan má náttúrlega nefna það líka að fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum búið við hefur líka verið þjóðinni efnahagslega mjög mikilvægt og sama vil ég segja um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í stóriðjunni. Þetta er það sem hefur verið að gerast hér á landi á síðustu árum og hefur gert það að verkum að ríkisstjórnin sem nú situr hefur úr miklum fjármunum að spila. En aldrei er góð vísa of oft kveðin og það getur líka verið vandi að stjórna í góðæri.

Ég ætla að nefna hér nokkur orð — ekki er tími minn að verða búinn, forseti?

(Forseti (ÞBack): Jú.)

Óskaplega líður tíminn hratt, ég á eftir að fara í heilmörg mál. En það er þá bara eitt sem ég ætla að nefna við hæstv. fjármálaráðherra og það varðar samgönguráðuneytið — ég sé að samgönguráðherra er ekki hér — en mikið er talað um mikla aukningu í útgjöldum þar sem er vissulega hið besta mál en hluti af því er reyndar fjármunir sem ákveðið var af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að verja til samgöngumála. Þá er ég að tala um að peningarnir sem fara til samgöngumála eru í tengslum við sölu Símans, 7,2 milljarðar kr. Það er því ekki eins og þetta hafi allt saman orðið til á síðustu dögum. Hvað varðar mótvægisaðgerðirnar almennt þá teljum við framsóknarmenn, eins og hér hefur komið fram áður, að þær hafi ekki hitt í mark og þess vegna lögðum við fram viðbótartillögur í þeim efnum sem eiga fyrst og fremst að aðstoða þá sem verða fyrir þessari miklu skerðingu og þá erum við að tala um sjómenn og fiskverkafólk auk sveitarfélaganna og útgerðarfyrirtækja.