135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:05]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst hlutverk stjórnmálamanna að láta hlutina rætast. En væntingar um að fram undan sé að kjörin batni hjá öllum þorra almennings með áframhaldandi uppsveiflu eru því miður ekki líklegar til að rætast. Við höfum stöðuna í dag sem hefur hlotið sinn dóm, m.a. frá alþjóðlegum sérfræðingum. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki taka nokkurt mark á því þegar þeir segja að fram undan sé gengisfelling upp á 25% eða allt að því.

Í fjárlagafrumvarpinu er strikað yfir þetta og sagt að gengið muni hækka á næsta ári. Hæstv. fjármálaráðherra er því algjörlega ósammála sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tel, virðulegi forseti, að engum sé greiði gerður með því að nánast hvetja fólk til að efna til skulda út á væntanlegar tekjur þegar því er spáð að skuldirnar muni hækka í verði vegna gengisfellingar og vaxtahækkana sem setja muni fjárhagsstöðu heimilanna úr skorðum.

Hæstv. fjármálaráðherra á ekki að ganga á undan öðrum í þessum leik. Hann á að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, horfast í augu við það hverjar afleiðingarnar af stefnu hans eru síðustu tvö, þrjú ár og haga sér skynsamlega þannig að fram undan sé stöðugleiki í efnahagsmálum því að stöðugleikinn kemur almenningi best.