135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:28]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skattalækkanir voru verulegar á síðasta kjörtímabili, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Veruleg hækkun varð á greiðslum úr almannatryggingakerfinu til aldraðra og öryrkja og gerðar breytingar sem bættu hag þeirra. Við höfum líka séð tölur um aukinn kaupmátt hjá almennu launafólki. Við teljum að við höfum á síðasta kjörtímabili bætt hag almennings verulega. Þess sér hins vegar ekki stað í frumvarpi til fjárlaga að skattalækkanir verði á þessu ári.

Háttvirtur þingmaður rifjar kannski upp með mér að í byrjun síðasta kjörtímabils var lagt fram frumvarp um skattalækkanir sem náðu yfir allt kjörtímabilið, m.a. 4% lækkun tekjuskatts á einstaklinga þótt það hafi aðeins breyst þegar líða tók á kjörtímabilið en þeim peningum sem lofað var að skilað yrði til almennings var að fullu skilað og gerðar voru breytingar, með hækkun persónuafsláttar, sem komu láglaunafólki sérstaklega til góða.

Hv. þingmaður spyr einnig á hvaða sviði megi vænta breytinga í heilbrigðisþjónustunni í þá veru að þar verði farið í fjölbreyttara rekstrarform. Ég tel að það verði á öllum sviðum. Í dag eru 90% af öllum öldrunarstofnunum í rekstri á vegum einkaaðila og sjálfseignarstofnana og við höfum ekki gert neinar athugasemdir við það. Stór hluti allra endurhæfingarstofnana er í höndum sjálfseignarstofnana, einkaaðila og annarra heldur en ríkisins. Síðan hefur Framsóknarflokkurinn, nú fyrst í dag heyrði ég hann státa sig af því, farið þá leið sem var farin í Salahverfi og Sóltúni. En Salahverfið er heilsugæslustöð og Sóltúnið er hjúkrunarheimili og í báðum tilvikum er þjónustan höfð til fyrirmyndar fyrir ríkisreknu stofnanirnar, þannig að það er ekkert að óttast.