135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:35]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að talað sé skýrt í þessum efnum. Hv. þm. Ásta Möller sagði áðan að yfir 90% af öllum öldrunarstofnunum væru í einkarekstri. Ég geri mjög skýran greinarmun á því hvort verið er að reka slíkar stofnanir í hagnaðarskyni, í þeirri von að þær skili arði til fjárfesta og eigenda, eða ekki. Það er alltaf fullyrt að einkareksturinn skili betri árangri. Þegar það er fullyrt hljótum við að spyrja: Hvar er árangurinn? Sýnið okkur hann svart á hvítu. Við höfum niðurstöður frá nálægum löndum af tilraunum sem voru gerðar með einkarekstur á heilu sjúkrahúsunum í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi og niðurstöðurnar eru alls ekki á þennan veg. Það er því mjög mikilvægt að gerð sé allsherjarathugun á árangri af einkarekstri, tilviljunarkenndum einkarekstri, í íslenska heilbrigðiskerfinu áður en lengra verður haldið á þeirri braut.

Ekki vantar fjármunina í fjárlagafrumvarpinu þegar kemur að einkarekstrinum. Þar eru nú 30 millj. kr. til hagræðingar og endurskoðunar á rekstrarformi heilsugæslustöðva, til þess að auka aðgengi og skilvirkni og undirbúa kaup á þjónustu með útboðum í ríkari mæli. Þar eru 30 millj. kr., dekur við þennan einkarekstur án þess að menn hafi nokkuð í höndunum sem sýnir að hann skili árangri, að hann sé betri fyrir sjúklingana sem eiga að njóta þjónustunnar, að hann sé ódýrari fyrir ríki og sveitarfélög sem eiga að greiða þjónustuna, hvað þá að hann skili betri árangri eða starfsöryggi fyrir þá sem eiga að skila þjónustunni. 30 milljónir í að breyta rekstrinum á heilsugæslustöðvunum en 300 þús. kr. til þess að auka og bæta við reksturinn á Heilsugæslustöðinni í Dalvík. Við skulum skoða þessar tölur í samhengi, frú forseti.