135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvað skýri það að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki vera til staðar og hvernig stendur á því að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, skuli ekki vera í salnum til að fylgjast með þessum umræðum eða varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Júlíusson. Hvernig stendur á því að þessir menn sitja ekki hér og taka þátt í umræðum og hlusta á það sem fram fer ?

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. fjármálaráðherra sem er í húsinu muni koma í salinn og láta aðra þingmenn sem hv. þingmaður nefndi vita að þeirra er vænst í þingsalnum.)

Síðan vil ég spyrjast fyrir um það hvort hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller sé í húsinu.

(Forseti (ÁRJ): Hann er ekki í húsinu.)

Hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller er ekki í húsinu og fylgist ekki með umræðum m.a. um hans málaflokk en ég hafði hugsað mér að beina fyrirspurnum til hans.

(Forseti (ÁRJ): Óskar þingmaðurinn eftir því að hæstv. samgönguráðherra verði kallaður í hús?)

Ég held að það væri ágætt fyrir síðari ræðu mína því að ég mun þá beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra.

Hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn svo og varaformaður fjárlaganefndar en ég sakna enn formanns nefndarinnar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar.

Að mörgu leyti hefur farið fram mjög fróðleg umræða um það sem er að finna í þessu fjárlagafrumvarpi og þá ekki síður um hitt sem ekki er þar að finna. Það segir nefnilega líka sína sögu og ég ætla aðeins að víkja að nokkrum slíkum þáttum.

Því miður hef ég ekki tíma til að ræða öll þau miklu loforð sem voru gefin í aðdraganda síðustu alþingiskosninga um að stórbæta kjör öryrkja, um að stórbæta kjör aldraðra. Þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu. Talað var um að stórefla velferðarþjónustuna og það er kapítuli út af fyrir sig að þess skuli ekki sjá stað í þessu frumvarpi um fjárlög og útgjöld ríkisins á komandi ári. Þetta er ekki gert þó að hverju mannsbarni sé ljóst að víða í velferðarþjónustunni horfir til mikilla vandræða ef ekki beinlínis neyðarástands m.a. vegna manneklu á stofnunum sem helst ekki á fólki vegna bágra kjara. Ég ætla ekki heldur að ræða það í neinum smáatriðum hvernig þessi ríkisstjórn forgangsraðar fjármunum. Í stað þess að veita fjármagn inn í velferðarstofnanirnar er varið auknu framlagi úr ríkissjóði til hermála. Þangað streyma milljónirnar og milljarðarnir en ekki inn í velferðarstofnanir til að borga sjúkraliðanum laun, umönnunarstéttunum, lögreglumanninum, þeim sem sinna fötluðu fólki. Þess sér ekki stað. Í fjárlagafrumvarpi er að vísu ekki venja að gera ráð fyrir kjarasamningum á komandi ári en sú vísbending sem við höfum í þessu frumvarpi um pólitíska forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er ekki góð, hún er því miður ekki góð.

Það er eitt sem mig langar að staldra við sérstaklega í tengslum við þetta fjárlagafrumvarp og þá jafnframt loforð sem gefin voru í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, ekki síst af hálfu hins fölblárri stjórnarflokks, Samfylkingarinnar, sem á mörgum kosningafundum sem ég sótti lofaði kjósendum því að skattleysismörk færu í 150 þús. kr. Ég sótti marga kosningafundi fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem fulltrúar Samfylkingarinnar hétu kjósendum því að hækka skattleysismörk í 150 þús. kr. (Gripið fram í: Allt svikið.) Allt svikið. Hvað er talað um að gera núna? Það er talað um að persónuafslátturinn, skattleysismörkin, verði látinn fylgja verðlaginu. Hvernig hefur verðlagsþróunin verið á liðnum mánuðum? Ef við lítum á verðlagsþróun frá september til september þá hefur verðlag hækkað um 4,2%. Ef við tökum mið af því sem menn gera núna ráð fyrir í fjármálaráðuneytinu þá ætla menn að verðlag hækki frá desember til desember um 4,8% eða þar um bil.

Hvað með launin? Hvað með launavísitöluna? Ef menn líta á launavísitölu frá ágústmánuði á síðasta ári til ágústmánaðar nú, þá erum við að tala um 8% hækkun og það má ætla að launavísitalan gæti orðið enn hærri í lok ársins. Hvað þýðir þetta? Ef persónuafslátturinn verður hækkaður í samræmi við verðlag, og við skulum gefa okkur hærri töluna 4,8% sem fjármálaráðuneytið ætlar núna, þá mundu skattleysismörkin fara úr 90 þús. kr. í 94.326. Ef þau fylgdu hins vegar launavísitölunni og við skulum bara staðnæmast við þróun hennar frá ágústmánuði til ágústmánaðar, þá ættu skattleysismörkin ekki að fara í 94.300 rúmar heldur í 97.205.

Hvers vegna er ég að vekja athygli á þessu? Ég er að segja að þrátt fyrir hin digru loforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar eru skattleysismörkin að lækka að raungildi, þau eru að lækka miðað við þróun launavísitölunnar. Ég er ekki að gera kröfu um að skattleysismörkin fari núna í 150 þús. kr. eins og Samfylkingin lofaði en ég geri þá kröfu að skattleysismörkin verði ekki rýrari, að þau rýrni ekki eins og allt bendir til að þróunin verði.

Hæstv. forseti. Ég ætla að bíða með fyrirspurn mína til hæstv. samgönguráðherra þar til í síðari ræðu og hann verður hér vonandi til staðar en víkja aðeins að ástarjátningum á milli oddvita Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar núna síðustu daga.

Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hélt ræðu í Valhöll fyrir nokkrum dögum. Hann sagði að nú væri ástæða til að gleðjast, nú ætti nefnilega að fara að taka til hendinni og það væri svo margt í pípunum. Hvar? Jú, á sviði heilbrigðismála sérstaklega og orkumála. Á báðum sviðum átti að einkavæða og á að einkavæða og hann sagði, með leyfi forseta:

„Á þessum sviðum“ — og verið er að vísa til heilbrigðismála og orkugeirans — „eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið.“

Síðan er svarað á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar, eða var hann á undan? Það má vel vera. Það er hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og formaður Samfylkingarinnar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að einkaaðilar fjárfesti í þeirri þekkingu sem býr í orkugeiranum og nýti hana til útrásar í arðbærum verkefnum í öðrum löndum.“

Hér er verið að mæra einkavæðingu orkugeirans. Hvað erum við síðan að horfa upp á gerast núna vegna þess að útrás er yfirskin? Við erum að verða í upphafi 21. aldar vitni að einhverjum stærsta og alvarlegasta þjófnaði sem þjóðin hefur orðið vitni að. Ég er að tala um það að einkaaðilar eru að stela auðlindum þjóðarinnar. Við erum að verða vitni að því þessa dagana og við eigum eftir að ræða þetta nokkrum sinnum, því að þetta er að gerast undir handarjaðri þessarar ríkisstjórnar. Það er að gerast undir handarjaðri íhaldsins í Reykjavík og síðan undir handarjaðri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þeirra er ábyrgðin og þeirra er að svara fyrir það sem nú er að gerast.