135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf dapurlegt að fylgjast með því hve smátt Sjálfstæðisflokknum tekst að hugsa þegar aldrað fólk og öryrkjar eru annars vegar. Þessum flokki finnst hann hafa gert svo mikið, hann hefur setið hér að völdum síðan 1991. Ég er búinn að heyra þessa ræðu ég veit ekki hvað oft, sennilega síðan 1991. Engu að síður er það svo að í þessari gósentíð búa hópar aldraðra og hópar öryrkja við smánarkjör og það þótt tugir milljarða séu afgangs á fjárlögum. Við erum að vekja athygli á þessu.

Síðan er það hitt, með viðskiptin og fólkið sem vill koma að vinna með okkur. Hvað heita þeir? Goldman Sachs, Bjarni Ármannsson hjá Glitni, Hannes Smárason hjá FL Group. Ef þetta eru svona óskaplega brilljant menn á sviði orkumála af hverju fara þeir þá ekki og virkja brilljansinn sinn og peningana sína? (Gripið fram í: Eru þeir ekki að því?) Nei, þeir ætla að fá á silfurfati frá hæstv. ráðherra Árna M. Mathiesen og félögum hans í ríkisstjórn, í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, Hellisheiðina og Nesjavelli. Eða hvers vegna þurfti Alcoa ekki að borga nema 300 milljónir til að fá að taka þátt í djúpborunum á Íslandi? Það er út af velvild stjórnvalda sem vilja heimila auðmagninu aðgang að eigum íslensku þjóðarinnar, dýrmætustu eignum hennar, auðlindunum.

Ef ráðherranum og ríkisstjórninni finnst þetta vera smámál, ekkert annað en svona lítið viðskiptamál sem óþarfi sé að að æsa sig yfir, þá fer ég að skilja hvers vegna sömu mönnum þótti ekki tiltökumál þegar sjávaraflinn, auðlindir hafsins, voru einkavæddar á sínum tíma (Forseti hringir.) og hafa aldrei sýnt minnstu tilburði til að skrúfa það ólánskerfi til baka.