135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér fór fram mjög athyglisverð umræða og ég vil lýsa ánægju minni með þann hluta málflutnings hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem laut að því hve mikilvægt er að við stórbætum grunninn fyrir áætlanagerð í vinnu fjárlaga, við að meta forsendur efnahagslífsins.

Eitt alvarlegasta málið sem við stöndum frammi fyrir í dag er að bæta þar vinnubrögðin. Eins og hv. þingmaður kom að er fyrst nú á þessum mánuðum sem menn fá upplýsingar um hagvöxtinn árið 2001. Ég man að eitt ár endaði hagvöxturinn í 7% en hafði lengi verið bara metinn í um 3%. Það er ekki hægt að reka trúverðugt efnahagslíf með svo lélegar upplýsingar. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni.

Þó að hæstv. fjármálaráðherra lemji stöðugt hausnum við steininn og viðurkenni ekki vandann þá eru þau gögn og líkön sem notuð eru kannski átta eða tíu ára gömul og hefur margt breyst síðan. Eitt brýnasta málið er að stofna sjálfstæða efnahagsstofu sem hafi metnað og fagþekkingu til að vinna upp nýjar forsendur, ný módel sem hægt væri að byggja á við áætlanir, fjárlagagerð og mat á efnahagsforsendum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það.

Það er mjög athyglisvert að velta fyrir sér hvernig menn vilja draga úr þenslu. Eitt af ráðum sem Seðlabankinn getur beitt fyrir utan stýrivextina er að hækka bindiskyldu bankanna. Menn hafa viðurkennt að það var glapræði fyrir fjórum árum er bindiskyldan var lækkuð um nærri 2% og er nú 1,5 eða eða 2%. (Gripið fram í.) Já, 2003 var hún lækkuð. Það viðurkenna allir að það var glapræði. Þá fóru allt í einu fóru hundruð milljarða í umferð án þess að það væri neitt skipulegur farvegur fyrir þá. Þetta tæki hefur hann enn. Ég held að við ættum að horfa t.d. til þess sem gerðist í Bretlandi nýverið, af því að menn eru að tala um að fjármálalífið hafi svo frjálsar hendur og megi valsa um eins og því sýnist vegna þess að það beri ábyrgð á sér sjálft. Var það þannig í Bretlandi um daginn þegar banki, frjáls einkabanki, var við það að fara á hausinn? Hann var ekki látinn taka afleiðingum gerða sinna. Það var talin of mikil áhætta fyrir samfélagið þannig að breska ríkið hljóp undir bagga með þeim banka og forðaði honum frá yfirvofandi gjaldþroti. Mundi ekki það sama gerast hér? Þegar menn eru að tala um að þeir hafi svo mikið frelsi til að valsa með eigur samfélagsins eins og þeim sýnist og taka þá áhættu sem þeim sýnist þá er það ekki í rauninni svo og það er blekking ef menn halda því fram.

Ætli íslenska ríkið mundi horfa upp á KB-banka verða gjaldþrota? Nei. Ætli íslenska ríkið mundi horfa upp á Landsbankann verða gjaldþrota? Nei. Þegar menn eru að tala um þetta mikla frelsi og þetta mikla sjálfstæði þá er það ekki svo að menn hafi rétt til að valsa með eigur samfélagsins, eigur þjóðfélagsins, eins og þeim sýnist. Þeir eru með beina eða óbeina ríkisábyrgð. Þetta er rétt að hafa í huga.

Annað hefur verið rætt varðandi stjórn peningamála, þ.e. að það þurfi að berja niður Íbúðalánasjóð. Drottinn minn dýri. Íbúðalánasjóður stendur undir því hlutverki að lána, fjármagna á lægstu vöxtum mögulegum og tryggja hinum almenna borgara möguleika á að koma sér upp eigin húsnæði. Það er reyndar sett þak á þátttöku Íbúðalánasjóðs. Hann tekur ekki þátt í fjármögnun við kaup á stærstu og dýrustu eignunum. En hver var fyrsta mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum gagnvart landsbyggðinni? Lækkun á lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Á hverjum bitnaði það? Þetta bitnaði fyrst og fremst á húsnæðiskaupendum á landsbyggðinni þar sem íbúðir eru með hátt brunabótamat og lágt söluverðgildi. Lánsmöguleikar hjá Íbúðalánasjóði hafa lækkað og það bitnaði á tekjulágu fólki sem var að kaupa sér íbúðir á 20 millj. kr. og þar undir. Hámarkslán Íbúðalánasjóðs er 18 millj. kr. á íbúð og má ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af brunabótamati. Þetta var fyrsta aðgerð þessarar ríkisstjórnar gagnvart landsbyggðinni, að skerða lánamöguleika hjá Íbúðalánasjóði. Auk þess þrýsti það heimilunum, íbúðarkaupendum til þess að taka sér viðbótarlán á hæstu vöxtum. Var það aðgerð sem þurfti inn í þetta samfélag? Nei.

Það voru mjög dapurleg spor sem hæstv. félagsmálaráðherra lét hafa sig í og reyndi að verja þótt enginn botnaði í rökunum hjá henni, hæstv. ráðherra, að þetta væri ofboðsleg efnahagsaðgerð, að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs um 10% sem bitnar aðeins á ákveðnum hóp einstaklinga og fjölskyldna á landsbyggðinni þar sem íbúðaverðið er lægst. Lágt var risið á þeim aðgerðum.

Það er hins vegar athyglisvert að lesa ræðu sem Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri flutti 3. október í Háskólanum á Akureyri, um peningastefnuna og áhrif hennar, þar sem hann hrekur ruglið sem sumir stjórnmálaleiðtogar hér láta hafa sig í að ræða um, að fara eigi að taka upp evru á næstu dögum og það muni bjarga stöðugleika efnahagslífsins. Hann segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Ójafnvægi hefur einkennt íslenskan þjóðarbúskap undanfarin missiri og gerir enn. Yfirstandandi þensluskeið á rætur í stórframkvæmdum sem hófust fyrir nokkrum árum og breytingum á fasteignaveðlánamarkaði …“ — og lækkun skatta, eða skattbreytingum.

Hann veit hvers vegna þetta ójafnvægi er þó að fjármálaráðherra viti það ekki og hafi ekki viðurkennt það. Hann rekur ítarlega í ræðu sinni að kannski hafi það verið styrkur okkar að hafa krónuna til að bregðast við í ölduróti vanstjórnar efnahagsmála í landinu. Kannski var það bjargráð. Hann kallar eftir stuðningi við að halda jafnvægi í efnahagsmálum. Ég er ekki stuðningsmaður þess að hér eigi að vera ástand sem réttlæti að Seðlabankinn sé með hæstu vexti í heimi, alls ekki. Ég tel það afar misráðið. En við megum ekki heldur fá óðaverðbólgu. Við skulum minnast þess að það varð þó fullt samkomulag á sínum tíma um lögin um Seðlabankann. Ég tel, þótt ég sé ekki sammála stefnu Seðlabankans og því hve fáránlegt það er þegar seðlabankastjóri talar um að Íbúðalánasjóður, með þátttöku sinni í íbúðakaupum, sé vandinn á markaðinum, að það sýni veruleikafirringuna á þeim bæ.

Ég er heldur ekki sammála því að forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi eigi að tala niður þá litlu viðleitni sem Seðlabankinn sýnir í efnahagsmálum í stað þess að breyta efnahagsstjórnuninni. Það á að krefjast breyttrar efnahagsstjórnunar. Það á að krefjast þess að strikað verði yfir stóriðjuframkvæmdirnar. Fram undan er val, val á milli þess að við styrkjum innviði samfélagsins, getum hækkað laun hjá umönnunarstéttunum og förum ekki í stóriðju og ekki í hernaðarumsvif. Þeir sem vilja fara í stóriðjuna eru slá á möguleikana til að styrkja innviði þessa samfélags.