135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:50]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að ítreka spurningu mína. Ég ræddi ekkert um greiðslubyrði í spurningu minni og vék ekki einu orði að því. Ég lagði einfaldlega út af ræðu hv. þingmanns sem var þannig að hann hefði verið á móti þessari breytingu á bindiskyldu bankanna og að fjármagn hefði orðið meira en ella í umferð, á sama tíma veltum við því upp að þegar Íbúðalánasjóður breytir lánshlutfalli sínu er auðvitað verið að draga úr fjármagni í umferð. Þess vegna spurði ég einfaldlega hvort það sé stefna skuggaráðherra fjármála landsins, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að takmarka flæði á fjármagni inn á markaði. Í annan stað óskaði ég eftir að þeirri spurningu yrði svarað af hálfu Vinstri grænna: Eru menn tilbúnir í að fara í ríkisábyrgðir á einkafyrirtækjum eins og hv. þingmaður vék að? Ég lagði fram þessa spurningu, hv. þingmaður, og ætlast til að henni sé svarað líkt og hv. þingmaður spurði mig að ákveðnum atriðum í morgun og við sem sitjum í fjárlaganefnd með honum gátum gefið skýr svör við.