135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:11]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum að geyma umræður um heimildargreinar og hvernig framkvæmdarvaldið hefur farið með þær heimildargreinar sem Alþingi hefur samþykkt. Við getum geymt okkur það til þeirrar umræðu sem bíður okkar vegna þeirra mála. Það er einfaldlega ekki tími né rúm til að ræða það hér.

Staðreyndin er einfaldlega sú, sama hvað hæstv. fjármálaráðherra gumar sig af því frumvarpi sem við erum að ræða hér, að frumvarpið er á skjön við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er ekki gömul. Þar segir að stefnt skuli að því að „ríkisútgjöld aukist ekki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu“. Svo lesum við þetta frumvarp sem við erum að fjalla um og það stenst ekki. Síðan rýnum við í langtímaáætlunina til fjögurra ára. Ekki stendur steinn yfir steini þar. Þessi grundvallarstefna sem ríkisstjórnin setti sér í efnahagsmálum er ekki stafsins virði, því miður. Hæstv. fjármálaráðherra opinberar það sjálfur, með þeim gögnum sem hér hafa verið lögð fyrir okkur, að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að standa við þetta stefnumið. Það er ósköp eðlilegt að stjórnarandstæðingar á þingi, því ekki heyrist mikil gagnrýni úr stjórnarliðinu, hafi áhyggjur af því hver staða efnahagsmála er almennt. Hæstv. ráðherra virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því.

Við í stjórnarandstöðunni þurfum að veita þessari ríkisstjórn mikið aðhald. Ekki fer hún vel af stað í þessu máli frekar en mörgum öðrum. En ég kem þeirri ósk hér með á framfæri, hæstv. forseti, að hæstv. heilbrigðisráðherra verði viðstaddur þegar ég flyt aðra ræðu mína um þetta frumvarp.