135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:13]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hressilega ræðu. Það blés aðeins um sali þegar hann flutti sína tölu þótt ég hafi reyndar verið þeirrar skoðunar, eftir að hafa hlýtt á umræðuna í dag, að mikilvægt sé að þingið styrki stjórnarandstöðuna með öllum tiltækum ráðum til að fram fari málefnaleg og öflug umræða.

En það var kannski ekki erindi mitt hingað heldur hitt að hv. þingmaður talaði mikið um þenslufjárlög og fann þeim allt til foráttu. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti um grunnstefið í auknum útgjöldum. Ég ætla ekki að fara yfir það en mig langar að minna á að hv. þingmaður var formaður fjárlaganefndar allt þar til í vor. Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að stór hluti fjárlagafrumvarpsins var unninn einmitt á þeim tíma þegar hv. þingmaður var formaður fjárlaganefndar. Hann er því kannski ekki laus við einhverja ábyrgð þó að að sjálfsögðu sé þetta lagt fram á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Ég vil einnig minna á það að þegar hv. þingmaður var í fjárlaganefnd jukust útgjöld svo mikið að Standard & Poor's lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs eftir að hv. þingmaður hafði stjórnað umferðinni á hinu háa Alþingi. Nú kemur hv. þingmaður, ber sér á brjóst og telur að efnahagsþekking ríkisstjórnarinnar og þá væntanlega stjórnarliðsins alls sé slík að nauðsynlegt sé að veita henni mikið málefnalegt aðhald. Ég geri ekki lítið úr því en það væri gaman að heyra hvaða sjónarmið ríktu á þeim tíma þegar hv. þingmaður var formaður fjárlaganefndar og Standard og Poor's sáu sig tilneydda að lækka lánshæfismat ríkissjóðs eftir aukninguna undir forustu hv. þingmanns.