135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hin árvissa umræða um fjárlög ríkisstjórnarinnar er ævinlega ein af líflegri umræðum Alþingis og 1. umr. kannski sérdeilis lífleg vegna þess að þá höfum við leyfi til að fara ansi vítt yfir sviðið og tæpa á þeim pólitísku málum sem eru grundvallaratriði hjá hverju og einu okkar, hjá hverjum og einum flokki sem á fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Það er eðli málsins samkvæmt gaman. Við höfum gefið okkur út í það að vinna þessi pólitísku störf. Við tökumst á um grundvallarsjónarmið og um okkar hjartans mál þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram. Þess vegna er hiti í umræðunni. Þess vegna tökumst við á. Auðvitað erum við öll að reyna að vera málefnaleg og það þarf ekkert að skamma okkur fyrir það þó að við förum stundum tilfinningalega í hlutina.

Ég ætla að leyfa mér að fara tilfinningalega í ákveðna þætti fjárlagafrumvarpsins. Ég ætla t.d. að leyfa mér að segja að mér finnst afar dapurlegt hvernig Samfylkingin kemur fram gagnvart sjúklingum og öldruðum. Í kaflanum frá heilbrigðisráðuneytinu er talað um aukna greiðsluþátttöku á hverri blaðsíðunni af annarri. Á einum stað stendur að lagt sé til að komugjöld hækki 1. janúar 2008 sem nemur 160 millj. kr. fyrir heilt ár, á annarri blaðsíðu segir að gert sé ráð fyrir 100 millj. kr. hækkun komugjalda til sérgreinalækna frá 1. janúar 2008 og á þriðju síðunni segir að hækka eigi greiðslur frá vistmönnum á öldrunarstofnunum um 90 millj. kr. Það skýrist ekki bara af auknum fjölda fólks á öldrunarstofnunum heldur af því að greiðsluþátttaka verði aukin. Ég verð að segja að mér finnst þetta rosalega dapurlegt og mér finnst Samfylkingin hafa náð litlu fram af þeim málum sem hún lagði áherslu á í kosningunum. Ég hefði viljað sjá meira af þeim í fjárlagafrumvarpinu.

Mér finnst það líka dapurlegt að hækkun skattleysismarka skuli ekki vera hér inni. Það var annað kosningaloforð Samfylkingarinnar sem hún hélt fram í kosningabaráttunni. Hvar standa nú þeir fulltrúar Samfylkingarinnar og þessara sjónarmiða sem fengu gríðarlega fína kosningu út á þessi hjartans mál sín þegar við finnum þeirra ekki stað í fjárlagafrumvarpinu? Ég trúi ekki að kjósendur Samfylkingarinnar séu ánægðir að sjá boðskapinn sem hér er til staðar.

Ég ætla líka að leyfa mér að segja að mér finnst mjög dapurlegt að sjá hvað hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin þverskallast endalaust við að horfa á hugtakið kynjuð hagstjórn. Hvar eru kynjasjónarmiðin í fjárlagafrumvarpinu? Ég spyr eina ferðina enn, sennilega í níunda sinn, eftir að hafa talað í fjárlagaumræðu í átta ár. Þetta er níunda ræðan mín um fjárlög á Alþingi Íslendinga og ekkert breytist hvað varðar kynjasjónarmiðin, ekkert. Það er alveg sama ásjónan á frumvarpinu nú og var á frumvarpinu sem ég gagnrýndi fyrir átta árum hvað þetta varðar.

Ég tek undir með borgarfulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík sem óskuðu eftir því að fjárlagafrumvarp borgarstjórnar yrði sent til umsagnar til Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Ég vil leyfa mér að taka þá hugmynd upp hér og leggja til að fjárlagafrumvarpið fari til umsagnar hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Það er löngu orðið tímabært að ríkisstjórn, hvort sem það er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fái „gúmoren“ fyrir slíka frammistöðu svo að talað sé sjómannamál. Það er ekki forsvaranlegt á þessum tímum, þegar við erum að reyna að takast á við spurninguna um jafnrétti kynjanna af einhverri alvöru, og höfum lög í landinu sem segja að við eigum að gera það í hólf og gólf í allri stefnumörkun, að ævinlega skuli koma fram fjárlagafrumvarp sem ber þess engin merki að hugsað sé í þessum efnum.

Hvar er t.d. stærsta heilbrigðisvandamál kvenna á Íslandi og þó víðar væri leitað, um alla veröld sennilega, þ.e. kynbundið ofbeldi? Hvenær ætla menn að átta sig á því að við útrýmum ekki kynbundnu ofbeldi nema setja í það fjármuni? Meðan það er ekki gert er ekki vilji hjá ríkisstjórninni til að ráðast gegn kynbundnu ofbeldi með þeim meðulum sem við höfum í samfélaginu.

Mér finnst það líka dapurlegt þegar ég horfi á frumvarpið að þar skortir hin grænu sjónarmið og þau hef ég líka nefnt aftur og aftur. Ég sakna þess að sjá ekki gríðarlega aukna áherslu á almenningssamgöngur og þátttöku hins opinbera í almenningssamgöngum um allt land. Ef við ætlum í alvöru að takast á við þá umhverfisvá sem er til staðar í hlýnun lofthjúpsins, sem tengist losun koltvísýringsins, verðum við á löggjafarsamkundunni að axla ábyrgð okkar og gera það sem við getum. Við getum sett fjármuni í að veita almenningssamgöngum í samfélaginu forgang. Við getum sett fjármuni í að tryggja að auðveldara verði fyrir fólk að ferðast um landið, hvort sem það er í þéttbýli eða í dreifbýli, án þess að vera ævinlega á einkabílnum sínum. Við getum líka stýrt því hvernig bíla menn kaupa sér. Við getum tryggt að stórum, bandarískum fóðurflutningadrekum fækki og við fáum fleiri smábíla sem losa minna út í andrúmsloftið. Þessa á að sjá stað í fjárlagafrumvarpinu en gerir það ekki af því að viljann skortir. Ríkisstjórnina skortir pólitískan vilja til að takast af alvöru á við umhverfismálin. Fjárlagafrumvarpið er manifesto, stefnuyfirlýsing, um það og það er dapurlegt að horfa upp á þetta.

En það dapurlegasta af öllu sem mér finnst dapurlegt við frumvarpið er hernaðaráherslan, að Íslendingar, friðelskandi þjóð í Norður-Atlantshafinu, sem hefur engan her og vill í orði kveðnu bera friðarboðskap út um veröldina, skuli setja 1,5 milljarða í hernaðarútgjöld í eigin landi. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á og ekki hægt að láta það gagnrýnislaust. Það er margt sem veldur mér áhyggjum þegar ég les frumvarpið og það er margt sem mér finnst afar dapurlegt í því og ég leyfi mér að vera tilfinningaleg þegar ég segi frá því hvernig lestur þess snertir mig.

Við fáum stuttum ræðutíma úthlutað í þessari umræðu en gætum talað í mjög langan tíma af því að við höfum áhuga á því að takast á um þessi grundvallarmál. (Iðnrh.: Þú getur talað aftur.) Ég get talað aftur, segir hæstv. iðnaðarráðherra og ég á vafalaust eftir að nýta mér þann rétt minn. Ég var að fá í hendurnar og við öll endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2006. Þegar maður fer að lesa það sem ríkisendurskoðandi hefur að segja við okkur kemur eitt af grundvallaratriðunum í ljós, það er meðferð ríkisfjármuna og það hvernig stofnunum okkar og framkvæmdarvaldinu ferst það úr hendi að vinna eftir fjárlögunum. Niðurstaðan er dapurleg hvað varðar einn ákveðinn þátt sem ríkisendurskoðandi bendir okkur á og við verðum að taka til okkar og skoða. Þegar skýrslan er lesin sjáum við að í lok ársins 2006 stóðu 75 fjárlagaliðir, eða sjöundi hver fjárlagaliður, í halla umfram 4% fjárheimild, samtals að fjárhæð 14 milljarðar kr. Sömuleiðis segir í skýrslunni að 54% allra fjárlagaliða séu með afgang umfram 4% vikmörk. Þegar á heildina er litið hafi tveir af hverjum þremur fjárlagaliðum annaðhvort verið með ofnýttar eða vannýttar heimildir umfram 4% vikmörk um síðustu áramót. Þetta er gríðarlega alvarlegur dómur ríkisendurskoðanda um það hvernig ríkisstjórninni og stofnunum sem starfa eftir fjárlögunum tekst til.

Við verðum að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvernig hann hyggst bregðast við þessu. Ríkisendurskoðandi brýnir okkur og telur að taka þurfi af festu á rekstri stofnananna sem fara meira en 4% fram úr fjárheimildum, ýmist með því að ákveða hærri fjárheimildir til þeirra eða þá með því að ganga eftir því að þær dragi úr útgjöldum sínum. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað verið sé að gera í fjármálaráðuneytinu til þess að ná þeim markmiðum sem ríkisendurskoðandi setur okkur og einnig við sjálf með löggjöfinni. Ríkisendurskoðun telur að ónýttar fjárheimildir sem eru umfram 4% eigi að fella niður nema þær eigi að nýta að nýju á næsta fjárlagaári en heimildir megi endurnýja á fjárlögum næstu ár eftir því sem þörf er á. Ég tel að fjármálaráðherra þurfi að svara okkur því í þessari umræðu hvernig hann lítur á ábendingar Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) og hvað hann sé að gera í sínu ráðuneyti til þess að betur megi fara.