135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:36]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að líta svo á að hv. þingmaður sé þar af leiðandi ánægður með fjölmargt í plagginu án þess að það hafi komið fram í þessari umræðu. Auðvitað eru mismunandi skoðanir á ýmsu í umræddu frumvarpi eins og hefur verið vikið að í morgun. Auðvitað er hér pólitískur ágreiningur á milli stjórnmálaflokkanna um margt.

Hins vegar er gott til þess að vita að þingmenn Vinstri grænna, þess stjórnmálaflokks, geti fylkt sér á bak við fjölmörg atriði í umræddu frumvarpi. Enda eru í frumvarpinu fjölmörg atriði sem við munum svo sannarlega ná samstöðu um. Hingað til hefur verið mjög góð samstaða í nýrri fjárlaganefnd og sérstaklega gagnvart því verkefni sem lýtur að framkvæmd fjárlaga. Þar hafa þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu náð að einbeita sér. Ég sé ekki fram á annað en að stjórnarandstöðuþingmenn í nefndinni geti í raun tekið jafnríkan þátt í því verkefni og við hin sem þar sitjum.