135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldraði aðeins við það sem kom fram í upphafi ræðu hv. þingmanns, um áætlanagerð. Ég er ósammála honum um að það sé vönduð áætlanagerð þegar tekjur fara svo langt fram úr því sem áætlað hefur verið. Nú er áætlað að á þessu ári verði skatttekjurnar 405 milljarðar en í desember þegar gengið var frá fjárlögum voru þær áætlaðar 343 milljarðar. Þarna munar 62 milljörðum kr. eða 18%.

Fyrir næsta ár er áætlað að afgangurinn verði 31 milljarður. Reyndar hefði hann orðið 60 milljarðar ef ekki hefðu komið til útgjöld frá því að gengið var frá áætluninni fyrir ári síðan. En þá var talið að árið 2008 yrði ríkissjóður rekinn með 5 milljarða kr. halla. Munurinn á matinu núna og spánni fyrir ári fyrir árið 2008 er 65 milljarðar kr., liðlega 18%.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst það ekki vönduð áætlunargerð þegar svo miklu munar í mati á skatttekjum ríkissjóðs. Ég veit að hv. þingmaður sem bæjarfulltrúi í Kópavogi væri ekki ánægður með það ef tekjuáætlun kaupstaðarins væri svona langt fjarri því sem síðar reyndist. Þá á eftir að taka tillit til skatttekna á næsta ári, af framkvæmdum sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu en gætu orðið. Þar á ég við stóriðjuna.