135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:53]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að hvað útgjaldaþáttinn varðar hefur hann staðist nokkurn veginn og skekkjan verið 0,8% eða minna undanfarin ár, eins og ég vék að áðan. Skýringin á því er í rauninni sú að menn hafa ákveðnar fjárheimildir til að eyða og menn verða einfaldlega að fara að fjárlögum og ekki fara fram úr því sem þeim er skammtað. Ég held að við hljótum öll að vera sammála því.

Hins vegar getum við ekki stjórnað einstaklingunum að þessu leyti. Það er nokkuð sem við ráðum bara ekki við. Í áætluninni er miðað við núverandi ástand en síðan getur eitthvað komið upp á, menn ákveðið að gera eitthvað sem leiðir til þess að tekjurnar aukist. Það er þá hægt að horfa til þess sérstaklega og er í raun horft til þess í fjárlagafrumvarpinu með ákveðnum fráviksþáttum. Menn geta í sjálfu sér séð ýmsar vangaveltur um þau atriði. En menn verða einhvers staðar að negla niður tiltekna tölu. Hv. þingmaður er ósammála þessari tölu. Ég ætla ekki að segja að hugmyndir hans verði alveg út í bláinn. Ég er bara að segja að það er mjög erfitt að áætla þennan tekjuhluta, miklu auðveldara að áætla gjaldahlutann. Það er ekki sagt af neinni léttúð. Þetta fylgir bara þessu frjálsa þjóðfélagi, að það er miklu erfiðara að áætla tekjurnar en gjaldahlutann sem við neglum niður í frumvarpinu.