135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi einkaframkvæmdina. Hæstv. samgönguráðherra fullyrti í ræðustól fyrir nokkrum dögum, 1. október í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að einkaframkvæmd í vegagerð, í samgöngumálum, skilaði betri árangri, stæðist betur tímasetningar og kostaði minna. Ég vildi fá upplýsingar um hvaðan hann hefði þetta. Við höfum lagt fram þingmál sem kemur til umræðu í byrjun næstu viku þar sem kallað er á rannsókn á þeim málum áður en ráðist verði í frekari einkavæðingu og einkaframkvæmd. Ef hugmyndafræðingar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þola ekki slíka umræðu býð ég ekki mikið í þann söfnuð.

Varðandi einkaorkugeirann er það að segja að rétt fyrir kosningar heimilaði ríkisstjórnin sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem var seldur með því skilyrði að hann gengi til einkaaðila. Inn kom Geysir Green Energy. Það heitir alltaf voðalega fínum nöfnum þegar menn ætla að gera eitthvað vafasamt.

Nú er það síðan að gerast að Reykjavík Energy Invest hefur opnast einkaframtakinu og einkafjármagninu. Bjarni Ármannsson, fyrrum Glitnisforstjóri, hann setti t.d. 500 millj. þangað þangað inn, hálfan milljarð á genginu 1. Nú er verið að selja á genginu 1,3 og 2,3 og við vitum að það á eftir að margfaldast. Þessir aðilar eiga núna tæplega helminginn í Hitaveitu Suðurnesja. Svona hratt er þetta að gerast. Þetta er ekki bara hús, fólk og þekking heldur auðlindir þjóðarinnar. Við eigum að taka það alvarlega.

Við skoruðum á fyrri ríkisstjórn að stöðva þetta og við skoruðum á núverandi ríkisstjórn að stöðva þessa (Forseti hringir.) sölu og þessi kaup. Það var ekki gert.