135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tilheyri þeim hópi manna sem hv. þingmaður kallar söfnuð sem hann dregur í efa að þoli að fram fari umræða um hagkvæmni einkaframkvæmdar. Ég þoli það alveg og það getur vel verið að niðurstaðan verði einhvern veginn öðruvísi en ég í dag þenki eða hv. þingmaður. En hann gæti örugglega leitað, ekki í geitarhús að ull heldur að góðum ráðum hjá félaga sínum, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Hann var í Reykjavíkurlistanum sem tók þessa ákvörðun, talaði um einkaframkvæmd á Sundabrautinni.

Ég vænti þess að jafnvandlega og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs jafnan vinna sína heimavinnu þá hafi hann þegar gert slíkar kannanir. Ekki talar hv. þingmaður út í loftið um jafnalvörumikil mál og þessi.

Að því er varðar síðan söluna á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja þá er það einfaldlega þannig að hún fór fram áður en kom til kosninga. Hvað á núverandi iðnaðarráðherra að gera í því máli? Ég er ekki í grundvallaratriðum á móti þeirri sölu. Ég er hins vegar í prinsippatriðum á móti því að það sé hægt að selja orkulindir sem eru í samfélagslegri eigu. Ég er í grundvallaratriðum á móti því að einkafyrirtæki geti eignast ráðandi hlut í þeim þáttum í orkumarkaðnum sem eru að lögum undir einokun. Um þessa stefnu held ég að sé ekki deilt. Enginn sjálfstæðismaður, svo að ég muni eftir, hefur mælt gegn þessu og upp er komin upp sú staða að m.a. sjálfstæðismenn í tveimur bæjarfélögum virðast fylgja henni. Það birtist t.d. í þessum samningi í dag.

Hv. þingmaður ætti að taka í mína útréttu sáttarhönd og hjálpa mér að koma þessu máli í gegn fremur en að fjandskapast um málið hér. Reynum að vinna úr þessari stöðu. Það er háttur praktískra stjórnmálamanna eins og ég veit að a.m.k. hv. þm. Ögmund Jónasson langar til að vera. (Forseti hringir.) Ég veit ekki alveg hvernig veruleikinn hefur hrint þeim (Forseti hringir.) draumi í framkvæmd. Ég hef stundum (Forseti hringir.) efasemdir um að það hafi gerst.