135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessar ábendingar. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið í salnum náði ég að heyra það sem um var rætt varðandi þann hlut sem lýtur að menningarstarfi og þar á meðal starfsemi til að mynda leikhúsa og annarra ólíkra hópa sem hún fór yfir. Ég hef fundið fyrir því þann stutta tíma sem ég hef verið formaður fjárlaganefndar að mjög stórir hópar á þessu starfssviði, atvinnuleikarar, atvinnumenn jafnt sem áhugafólk, hafa leitað til mín í miklum mæli til þess að leggja áherslu á erindi sín. Við Íslendingar erum svo lánsöm að eiga framúrskarandi listafólk í mjög mörgum menningargreinum og þetta fólk er að fylgja sínu eftir. Það hefur gert það á umliðnum árum gagnvart fjárlaganefnd hverju sinni og ég hef trú á því að fullur vilji sé til þess hér eftir sem hingað til að horfa til þeirra stóru hópa sem vilja fylla þann flokk sem kemur að menningarstarfi.

Menntamálaráðuneytið fer vissulega fram með verkefni sín innan þess ramma sem við höfum skapað hverju sinni en ég hef áður lýst því yfir að fjárlaganefndin öll, ekki bara stjórnarliðar heldur einnig stjórnarandstaðan, getur komið að þessum verkefnum í umræðu í fjárlaganefnd og ég á von á því að það gerist milli 1. og 2. umr.