135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:00]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna það að mér fannst um tíma eins og hv. þingmaður væri að gagnrýna fjármuni til menningarstarfsemi. Þar af leiðandi tek ég það sem svo að við getum orðið ásátt um þann hluta fjárlagafrumvarpsins.

Hins vegar er það svo að þeir hlutir sem hv. þingmaður fór yfir fór ég yfir í ræðu minni í morgun og gerði grein fyrir því m.a. þar og/eða á öðrum stöðum, m.a. í fjölmiðlum á sumarmánuðum. Ég hef rætt þetta innan fjárlaganefndar og verið með mjög skýr skilaboð um þetta. Ljóst er að það er alla vega einhugur innan fjárlaganefndar að horfa á þetta með öðrum hætti en verið hefur því við getum auðvitað ekki horft á það að við séum að halda úti tveimur húsafriðunarsjóðum svo dæmi sé tekið. Menn verða því einfaldlega að velta því fyrir sér hvort umræddir liðir sem hafa verið á verksviði fjárlaganefndar eigi að vera í húsafriðunarsjóði og/eða aðrir sjóðir sem um er rætt.

Ég hef hins vegar lýst því yfir, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að ég telji að við gerum ekki stórkostlegar breytingar á þessu haustþingi. Fjárlaganefnd er ásátt um það að viðhafa sama vinnulag á þessu þingi eins og á undanförnum þingum. Það er enginn ágreiningur um það á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að þeir sem eru að setjast í fjárlaganefnd eru flestir nýir og þess vegna vilja menn reyna að slípa sig til í störfum innan nefndarinnar en horfa til breytinga í þessu verkefni, því ég tek svo sannarlega undir það sem hér hefur verið sagt og má kannski segja að hv. þingmaður sé að taka undir það sem ég hef sagt.