135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:04]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í annað sinn. Mér fannst ég fá hvatningu frá hæstv. fjármálaráðherra til að fara frekar ofan í ákveðna liði í dag þannig að ég ætla að gera það.

Það sem ég vil koma sérstaklega inn á og hefði gjarnan viljað að hæstv. samgönguráðherra væri hér til að hlusta á mál mitt, sá mikli byggðamálaráðherra, er að það á að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð, sjóð sem hefur haft það hlutverk að ná niður verði á bensíni og gasolíu á landsbyggðinni. Sem dæmi má nefna að á Þórshöfn munar þetta 3 krónum og 30 aurum annars vegar hvað varðar bensín og 2 krónum og 20 aurum hvað varðar gasolíuna. Nú á að þurrka stuðninginn sem kemur af innkaupum á þessari vöru út, þannig að það er ekki eins og þetta séu framlög úr ríkissjóði, og láta fólkið borga fullt verð. Stuðningurinn hefur verið til þess að jafna búsetuskilyrði á landinu og nú á að henda honum í burtu. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart því ég veit að sjálfstæðismenn hafa haft áhuga á að koma sjóðnum fyrir kattarnef í mörg ár en við höfum staðið á bremsunni, en það virðist hafa gengið vel að fá Samfylkinguna inn á þetta. Mér finnst þetta algjört hneyksli. Á sama tíma og verið er að grípa til ráðstafana vegna minnkunar á aflaheimildum í þorski þá er þetta eins og blaut tuska framan í landsbyggðarfólk.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra mun koma hér upp og segja að ég hafi lagt niður jöfnun á sementi en þar var bara allt annað fyrirkomulag. Þar var greitt samkvæmt reikningi og það var enginn hagræðingarhvati til staðar og þess vegna taldi ég rétt að leggja niður það fyrirkomulag. Hér er aftur á móti um að ræða að borgað er fyrir hvern lítra af bensíni og gasolíu sem kemur í landið og síðan er endurgreitt eftir því hvar varan er seld og eftir því sem það er lengra frá Reykjavík því hærra er þetta. Mér finnst þetta því vera grafalvarlegt mál og hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. samgönguráðherra og fleiri ráðherrar eiga eftir að fá að heyra eitthvað á svipuðum nótum og ég hef verið að segja núna frá landsbyggðarfólki.

Svo ætla ég aðeins fyrst ég er komin hérna upp að nefna nokkur mál, t.d. Hafrannsóknastofnun sem hefur verið mikið til umfjöllunar og flestir hafa haldið því fram að þar sé fjárskortur. Það er mjög lítið sem hæstv. ríkisstjórn hefur komist að niðurstöðu um að hækka framlög til Hafró. Vissulega eru 30 millj. til viðbótar til veiðarfærarannsókna á Ísafirði sem ég þekki vel til og er ánægð með það en þarna tel ég að standa hefði þurft betur að málum.

Svo vil ég gjarnan nefna Þróunarsamvinnustofnun sem var í minni tíð í utanríkisráðuneytinu tekin mjög til umfjöllunar. Skilað var skýrslu sem hljóðar upp á það að skynsamlegast væri að taka þessa starfsemi í ráðuneytið. Við hæstv. forsætisráðherra vorum sammála um að það skyldi gert þótt ég væri ekki með tillögur um það á síðasta þingi þar sem það var orðið stutt til kosninga. Ég taldi rétt að ný ríkisstjórn og nýr utanríkisráðherra mundi fjalla um þessi mál og móta tillögur. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það er komin niðurstaða í það hvað gera skal.

Fyrst ég er að tala um utanríkisráðuneytið vil ég lýsa ánægju með það að Ratsjárstofnun sé undir utanríkisráðuneytinu í fjárlagafrumvarpinu sem þýðir að það verður ekki breyting á hvað það varðar. Þó vissulega sé breyting á að nú er þetta orðin stofnun í íslenskri stjórnsýslu þá hefur ekki verið látið eftir hæstv. dómsmálaráðherra með það að stofnunin fari undir dómsmálaráðuneytið. Að þetta skuli vera sett fram með þessum hætti sannar að það er búinn að vera ágreiningur í Sjálfstæðisflokknum um málið. Forsætisráðherra hefur ekki viljað viðurkenna það en miðað við að þetta er gert með þessum hætti og miðað við það sem fram hefur komið opinberlega frá hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, leikur enginn vafi á því að það er bullandi ágreiningur í Sjálfstæðisflokknum um málið. Ég stend með utanríkisráðuneytinu og tel að það væri útilokað að starfsemin færi undan utanríkisráðuneytinu þar sem um er að ræða starfsemi sem snýr að verulegu leyti að Atlantshafsbandalaginu og Atlantshafsbandalagið hefur ekki samskipti við fagráðuneyti eftir því sem ég best veit.

Síðan vil ég spyrja að einu og fjármálaráðherra sem er þar að auki fyrrverandi sjávarútvegsráðherra getur kannski upplýst mig um það. Fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra á síðustu dögum að meiningin sé að setja meiri kraft í þorskeldi hér á landi. Þetta er eitt af því sem við framsóknarmenn settum fram sem tillögu að mótvægisaðgerðum. Ég hef ekki áttað mig á því hvar upplýsingar er að finna um það hvernig þetta skuli gert og hvað ríkisstjórnin hafi sérstaklega í huga í þeim efnum. Ég tel að við eigum mikla möguleika þarna. Við megum ekki verða eftirbátar annarra í þessu sambandi og minni á að þegar farið var í lúðueldið og framleiðslu á lúðuseiðum, þá kom ríkið mjög myndarlega að því máli sem varð til þess að við erum best í heimi í að framleiða lúðuseiði. Ég trúi því að við getum líka náð miklum árangri í sambandi við framleiðslu á þorskseiðum ef staðið er myndarlega að málum. Þá er ég að tala um að ríkið mundi í samstarfi við útgerðarfyrirtækin — ég er ekki að tala um að ríkið standi eitt í þessu og kannski þarf ríkið ekki að setja svo mikið fjármagn í þetta heldur mundu útgerðarfyrirtækin gera það, en að ríkið sýni einhvern lit, sýni einhvern áhuga á málinu og segi opinberlega að ríkisstjórnin sé þeirrar skoðunar að þetta sé einn af okkar framtíðaratvinnuvegum.

Síðan væri hægt að segja ýmislegt sem ég ætla ekki að gagnrýna, en miðað við hvernig Samfylkingin hefur talað í landbúnaðarmálum á síðustu missirum er það náttúrlega eitt af kosningasvikunum hjá Samfylkingunni að framlög til landbúnaðarráðuneytisins hækka milli ára. Það stendur því ekki steinn yfir steini þar frekar en annars staðar í málflutningi samfylkingarmanna.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en það var sérstaklega þetta með flutningsjöfnunina sem gerði það að verkum að ég vildi koma hér upp.