135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir á kollgátuna, það er einmitt sá góði árangur sem náðist með flutningskostnaðinum á sementinu þar sem menn tala um að flutningskostnaður og þar með verð á sementi hafi lækkað við breytinguna sem leiðir til þess að við teljum að svipuðum árangri eigi að verða hægt að ná varðandi flutningskostnað á olíu. Enda sjáum við það líka að stórfyrirtæki á stærð við olíufyrirtæki selja vöru sína á sama verði alls staðar á landinu, nánast undantekningarlaust. Ef Jóhannes í Bónus getur það, þá geta olíufélögin gert það líka. Ég er alveg sannfærður um það.

Ég átta mig ekki alveg á því að það sem hv. þingmaður sagði um Ratsjárstofnun komi fjárlögunum beint við en allt í lagi fyrir hana að koma sínu skoðunum á framfæri þar. Ég veit reyndar, og hef auðvitað fylgst með því lengi, að hún ber hag Þróunarsamvinnustofnunar fyrir brjósti.

Varðandi það sem hún nefnir sem tengist Hafrannsóknastofnun, þá er það fleira en veiðarfærahlutinn fyrir vestan sem er um að ræða, það eru líffræðiverkefni upp á einar 25 millj. til viðbótar og eitthvað þar að auki sem ég man ekki í augnablikinu. Síðan kemur úr mótvægisaðgerðunum sem ekki er búið að dreifa á stofnanirnar í frumvarpinu en er í potti undir fjármálaráðuneytinu enn þá og verður væntanlega breytt við 2. umr., að þá koma 50 millj. vegna togararallsins. Síðan er gert ráð fyrir því að í rannsóknaraukningunni yrði um þorskeldismarkáætlun að ræða og að það verði markáætlun í hafrannsóknum. Þorskeldisáætlunin yrði undir AVS-sjóðnum svokallaða. Ég vil einnig nefna fjárveitingar í mótvægisaðgerðum til útibúanna og setranna sem jafnframt munu duga vel í hafrannsóknum.