135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hv. þm. Gunnar Svavarsson gaf varðandi samruna Geysis Green Energy og dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavík Energy Invest, sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík reynir að keyra áfram í samvinnu við Framsóknarflokkinn. Hv. þm. Gunnar Svavarsson sagði að við yrðum að gæta okkur á að tala málið ekki of langt áður en ákvarðanir hafa verið teknar. Ég tek þessari ábendingu að sjálfsögðu. Við höfum einvörðungu horft til vinnubragðanna í Reykjavík, stjórnarmeirihlutans í borginni, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem ég tel vera mjög ámælisverð.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson sagði að þessi mál ættu eftir að koma til ákvarðanatöku hjá öðrum eignaraðilum og við skyldum ekkert gefa okkur í þeim efnum. Hann gaf engin fyrirheit á einn veg eða annan. En mér þótti í sjálfu sér gott að heyra þessa yfirlýsingu.

Hann sagði, hv. þingmaður, að hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hefði verið seldur á opnum markaði. Þetta er ekki alveg rétt vegna þess að eftir að hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen hafði farið höndum um þessar tillögur var salan skilyrt að einu leyti, þ.e. að þessi sala yrði ekki á opnum markaði. Opinberum fyrirtækjum, stofnunum í almannaeign, var meinað að kaupa hlutinn. Hvort það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkið hafi fengið góðan pening fyrir þessa sölu, miklir peningar voru það vissulega, veit ég ekki en ég held að það sé agnarsmá upphæð þegar málið er skoðað til lengri tíma.