135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:40]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bæta því við í umræðuna að það sem ég var einfaldlega að benda á að þegar menn gera með sér hluthafasamkomulag og eru hluthafar í hlutafélögum þá koma svona mál til umræðu í hlutafélaginu. Það er alveg óvíst hvernig því vindur fram og jafnframt hvernig eigendahópurinn tekur á því.

Í sumar kom upp sambærilegt mál og ég verð að segja fyrir mitt leyti að margt í því hefði farið á annan veg hefði farið fram umræða um málið. Umræðan í Hafnarfirði núna er hins vegar með þeim hætti að þeir sem sitja þar í bæjarstjórn fá allir að koma að umræðunni, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Samfylkingin. Í því er enginn undanskilinn, allir fá tækifæri til þess að taka þátt og vinna í þeim málum. Þannig mun það verða áfram í Hafnarfirði því auðvitað eru þetta stórir hagsmunir.

Ég vil hins vegar leiðrétta hv. þm. Ögmund Jónasson að vissu marki. Auðvitað má túlka það sem að þetta hafi ekki verið á opnum markaði. En þar nýttu þrjú sveitarfélög sér forkaupsréttinn. Reykjanesbær, Hafnarfjarðarbær og Grindavík nýttu sér forkaupsréttinn á hlut ríkisins og keyptu hann. Það var síðan ákveðið í hluthafasamkomulaginu hvernig því yrði deilt á síðari stigum þegar náðist sátt varðandi ákveðin átök í félaginu. Ríkið sem slíkt seldi ekki einkaaðila hlutinn heldur voru það sveitarfélögin sem nýttu sér forkaupsréttinn.