135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af því sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, sagði um endurskoðun á fjárreiðulögum eða reglugerðum og verklagi við fjárlagagerðina sem hæstv. fjármálaráðherra hafði tæpt á í máli sínu í morgun, þá vil ég bara segja að að sjálfsögðu erum við tilbúin til að skoða og endurskoða þessi lög og þessar reglur og það sem að því lýtur. Það er bara alveg sjálfsagt. Ég hef flutt held ég nánast á hverju þingi í nokkur ár, frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins sem lutu einmitt að því að farið væri að lögum varðandi framkvæmd fjárlaga. Ef tillögur mínar hefðu verið samþykktar stæðum við ekki frammi fyrir Hafnarfjarðarferju hæstv. fjármálaráðherra sem sumir kalla Grímseyjarferju, en hún er nú enn þá í Hafnarfirði og óvíst hvort hún fer nokkurn tímann þaðan.

Önnur atriði sem hv. þingmaður minntist á og komu fram í ræðu fjármálaráðherra er ég ekki tilbúinn að skrifa upp á, að fjármálaráðherra fái að stofna einhvers konar banka sem hann deili svo út úr og fái í rauninni meira og minna lögbundnar heimildir til þess sem hann var að gera á svig við lög síðastliðið sumar. Ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á það og aðrar hugmyndir sem þar komu fram og voru bara til þess að staðfesta að mér virtist í fljótu bragði enn frekar kverkatak eða tröllatak framkvæmdarvaldsins á þinginu hvað varðar framkvæmd fjárlaga.

Ég ætlaði bara að taka fram að það var alveg sjálfsagt og ég hef verið mikill hvatamaður þess að skerpa á ákvæðum fjárreiðulaga en ekki í þeim anda sem (Forseti hringir.) sem hæstv. fjármálaráðherra var að fara fram á um að hann fengi aukið vald.