135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Tímans vegna ætla ég að neita mér um að ræða orkumálin og söluna á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og fjárheimildir framkvæmdarvaldsins og Grímseyjarferjuna því til þess munu gefast önnur tækifæri í haust. (Gripið fram í.) Misskildirðu mig?

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem nú hefur staðið frá því klukkan hálfellefu í morgun. Ekkert eitt efnisatriði eða efnisflokkur eða þáttur hefur að mínu mati staðið upp úr í umræðunni. Hins vegar ber umræðan þess merki að um er að ræða 1. umr. fyrstu fjárlaga kjörtímabilsins og að breytingar hafa orðið á Alþingi frá því á síðasta kjörtímabili. Bæði eru hv. þingmenn, sumir hverjir, og þingflokkarnir að fóta sig á nýjum hlutverkum og það hefur áhrif á það hvernig mál eru lögð fram og hvernig menn bregðast við.

Ef ég hleyp aðeins örlítið á heildarframsetningu mála eins og ég upplifi hana síðustu sólarhringana, þá finnst mér á málflutningi Vinstri grænna að þeir tali bæði um að það sé þensla í fjárlögunum, of mikil þensla, og telji á hinn bóginn að ekki sé nóg að gert í hinum ýmsu málum.

Hvað málflutning Frjálslynda flokksins varðar og talsmanna hans, þá telur annar þeirra frumvarpið allt of svartsýnt, að miklu meira sé að vænta í efnahagskerfinu á næstunni en frumvarpið gerir ráð fyrir, og hinn talsmaðurinn telur að frumvarpið og umfjöllun forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar ýti undir væntingar hjá almenningi um betri hag og að halda beri aftur af slíkum væntingum.

Framsóknarflokkurinn talar um bólgin fjárlög en leggur jafnframt til aukin útgjöld til tiltekinna mála. Það má segja að þær tillögur sem hann hefur lagt fram séu um það bil einn fjórði af því sem ég hef kynnt hér sem tillögur um stefnumarkandi útgjaldaaukningu í frumvarpinu. Framsóknarflokkurinn, þ.e. bæði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, boða tillögur um lækkun útgjalda síðar í ferlinu og þá væntanlega við 2. umr. Ég undrast hins vegar hvers vegna í ósköpunum þingmenn Framsóknarflokksins draga inn í umræðuna 6. gr. heimild sem varðar heilbrigðisstofnanir og fyrst kom inn í fjárlög við 2. umr. árið 2000, væntanlega fyrir forgöngu þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Ingibjargar Pálmadóttur. Ég skil ekki almennilega hvaða tilgangi það þjónar að draga þessa 6. gr. heimild inn í umræðuna, en hv. þingmönnum er það að sjálfsögðu frjálst.

Það er þó þrennt sem hefur hvað eftir annað komið upp í umræðunni hjá fulltrúum að segja má allra flokka. Það er í fyrsta lagi sú óvissa sem menn tala um að sé í þjóðhagsáætluninni. Ég hef reyndar sjálfur gert það að umtalsefni og tiltekið þrjár sérstakar ástæður til þess og einnig það að í þjóðhagsáætluninni eru tvö frávikstilvik vegna tveggja þessara þriggja óvissuþátta. Því er á engan hátt hægt að halda því fram að ekki séu allar upplýsingar lagðar á borðið eða sú hugsanlegu staða sem upp gæti komið og Alþingi gæti þurft að taka tillit til í umfjöllun sinni um málið.

Auðvitað eru skýringar á því hvers vegna um þessa óvissu er að ræða. Það er sjálfsagt rétt að nefna það svona til fyllingar í umræðuna, án þess að ég sé að gera það til að afsaka eitt eða neitt, að það eru fleiri aðilar sem hafa átt við svipuð vandkvæði að stríða, sérstaklega í tekjuáætlununum. Það á bæði við um slíka vinnu í fjárlögum annarra landa og eins hvað varðar þá aðila hér landi sem setja fram efnahagsáætlanir eða efnahagsspár og jafnvel Seðlabankann sjálfan en hann hefur líka átt í erfiðleikum með að spá fyrir um tekjur ríkissjóðs og greiningardeildirnar jafnframt.

Hins vegar held ég að hv. þm. Magnús Stefánsson, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, hafi kannski tengt saman í ræðu sinni það sem að mínu mati eru líklegustu skýringarnar á þessu. Þær eru að nýir tekjustofnar eru að koma inn í fjárlögin og hafa verið að koma inn í þau á síðustu árum og nýtt efnahagsumhverfi með breytingum því til viðbótar sem gera það að verkum að við höfum ekki sömu forsöguna til að byggja á þegar við erum að meta gögnin og komast að réttu niðurstöðunum. Þetta er annars vegar fjármagnstekjuskatturinn og hins vegar tekjuskattur lögaðila sem hafa breytt hlutföllunum í tekjuskiptingu ríkissjóðs.

Annað atriði sem hefur komið upp hjá fjölmörgum ræðumönnum eru ýmsir ósiðir í framkvæmd fjárlaga, framúrkeyrsla og þar fram eftir götunum. Og þriðja atriðið er starfsumhverfi þingmanna og þingnefnda sem margir hafa talið ófullnægjandi og talið að það þyrfti að bæta og að það gæti jafnvel orðið til þess að bæta forsendur manna til þess að starfa við fjárlagafrumvarpið og jafnvel forsendur manna til þess að taka þátt í umræðu eins og fjárlagaumræðunni.

Það hefur líka komið fram hjá nánast öllum aðilum að á öllum þessum þremur sviðum er verið að vinna að úrbótum á ýmsum stöðum. Menn eru almennt sammála um að hlutir færu betur fram ef betur tækist til með þessa þætti. Því er óhætt að segja að þrátt fyrir að tekist hafi verið á um ýmsa hluti sé kannski meiri samstaða um það sem skiptir mestu máli þegar til lengri tíma er litið, það er að áætlunargerðin sé sem best til þess að byggja ákvarðanatökuna á, að framkvæmdin sé sem réttust og í samræmi við lög og að þingið hafi forsendur til þess að vinna vel úr þeim málum sem lögð eru fyrir.

Ég held að það eigi að geta verið þokkalega góð niðurstaða úr þessari umræðu sem allir ættu að geta vel við unað. Ég vil að lokum þakka þeim sem þátt tóku í umræðunni og óska góðs samstarfs við nefndina og þingheim allan í áframhaldandi vinnu í fjárlaganefnd.