135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi starfsaðstöðu þingsins og annað þar að lútandi. Hæstv. ráðherra sagði að að sínu viti stæði ekkert upp úr við þessa umræðu. Það væri fátt sem hefði komið á óvart. Ég get nú ekki sagt að það eigi við um okkur í stjórnarandstöðunni. Við urðum undrandi yfir því að ekki kæmu fram breyttar áherslur í fjárlagafrumvarpinu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn, hvað eigum við að kalla það, skipti um staf á göngu sinni um íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf sem hefur staðið nú frá byrjun 10. áratugarins. Hann komst fyrst til valda með fulltingi Alþýðuflokks árið 1991, síðan tók Framsókn við 1995 og nú heitir stafurinn Samfylking. Þrátt fyrir digrar yfirlýsingar og loforð Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga þá gætir þeirra því miður ekki í fjárlagafrumvarpinu. Við vöktum athygli á því hér við umræðuna hve slöpp Samfylkingin virðist hafa verið við smíði fjárlagafrumvarpsins.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að annars vegar hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varað við þeirri miklu þenslu sem er í samfélaginu og þar koma margir þættir við sögu. Röng forgangsröðun í fjárlögum vissulega og einnig aðrir þættir. Á hinn bóginn höfum við bent á að ýmis starfsemi á vegum hins opinbera er alvarlega fjársvelt, það eru grunnþjónustustofnanir í velferðarþjónustunni. Í þessu er engin mótsögn fólgin.