135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

1. fsp.

[13:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hygg að þingmanninum sé vel kunnugt um að ekki stendur til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Það hefur margoft komið fram hjá borgarstjóranum í Reykjavík og um það var mörkuð alveg skýr stefna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á síðasta vori.

Miklar hræringar hafa verið á orkumarkaðinum, það er vissulega alveg rétt, og það eru mörg sveitarfélög sem áttu miklar eignir í Hitaveitu Suðurnesja sem nú hafa leyst til sín þau verðmæti og geta gert upp skuldir sínar og margt fleira á þeim grundvelli.

Ég get upplýst hv. þingmann um það að iðnaðarráðherra er með í undirbúningi lagabreytingar sem skipta máli í þessu sambandi. Ég hygg að ef vel er á öllum málum haldið væri hægt að ná hér breiðri samstöðu um ákveðin atriði í því efni því að ég get tekið undir eitt og eitt sjónarmið hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar að auðlindirnar sjálfar, sem eru í almannaeigu í dag, eiga ekki endilega að vera andlag einkavæðingar.