135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

2. fsp.

[13:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru greinilega hin tvítyngdu stjórnmál sem eiga sér stað á Alþingi í dag. Spurt var um það hvaða starfsmenn önnuðust upplýsingaöflun sem ég gat um í ræðu minni á þingi NATO nú um helgina og hvaða heimildir væru til að sinna þeirri upplýsingaöflun. Ég vil fyrst segja það að í ræðu minni á NATO-þinginu sagði ég frá því að Ísland tæki þátt í að dreifa og greina upplýsingar með bandalagsþjóðum og þar átti ég við tvennt. Annars vegar eru upplýsingar sem starfsmenn Ratsjárstofnunar safna úr loftvarnakerfinu og senda til grannríkja eins og ítrekað hefur gerst vegna flugs rússneskra sveita og ítrekað hefur komið fram. Þetta er eina söfnun upplýsinga sem fram fer á Íslandi og henni er sinnt af starfsmönnum Ratsjárstofnunar.

Hins vegar berast frá NATO upplýsingar um öryggisástand á svæðum þar sem íslenskir friðargæsluliðar eru að störfum og ráðuneytið tekur við þeim upplýsingum og á grundvelli þeirra fer fram stöðugt mat á öryggi okkar fólks og við reynum að meta það, meðal annars á Sri Lanka, í Afganistan og víðar.

Heimildirnar sem að baki þessu búa, að taka við þessum upplýsingum frá NATO, grundvallast á aðild Íslands að Norður-Atlantshafssamningnum frá 1949 og eins aðild Íslands að samkomulagi varðandi réttarstöðu Atlantshafsbandalagsins frá árinu 1954. Hér er fyrst og fremst um að ræða utanríkismál, þ.e. örugga upplýsingamiðlun og samskiptaleið á vettvangi alþjóðasamtaka um öryggi og varnir Íslands.