135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:52]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér þessa dylgjupólitík hv. þingmanns. Það var einfaldlega verið að breyta lögum. Það var einfaldlega verið að reyna að bregðast við m.a. athugasemdum umboðsmanns Alþingis. Alþingi komst samhljóða að niðurstöðu um það hvernig standa ætti að úthlutun byggðakvótans. Það þýddi m.a. að kæruferlar voru lengri en þeir voru líka gerðir gagnsærri. Við vitum að við vorum að fara inn í nýtt umhverfi. Allmörg tilvik komu upp þar sem sveitarfélög höfðu gert tillögur um tiltekna úthlutun á byggðakvóta. Þegar þau sáu hvert það leiddi óskuðu þau eftir því sjálf að þessi mál yrðu tekin upp að nýju. Þetta gerði það að verkum að úthlutun byggðakvótans í tilteknum tilvikum gekk hægar fyrir sig. Sú staðreynd að útgerðarmenn og sjómenn og aðrir sem höfðu hagsmuni af málinu gátu sent kærur til sjávarútvegsráðuneytisins gerði það líka að verkum að þessi mál gengu hægar fyrir sig.

Ég er hins vegar sannfærður um að við höfum lært af þessu og menn hafa áttað sig betur á því lagalega umhverfi sem Alþingi setti í kringum þetta mál og það verður þess vegna hægt að úthluta byggðakvótanum fyrr en ella. (Forseti hringir.) En ég ætla ekkert að fara að festa mig í dagsetningum og hv. þingmaður sem er með þessar dylgjur hér ætti að reyna að halda sig við efni málsins.