135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hv. þingmaður er kominn á flótta undan því máli sem hann hóf máls á í upphafi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég er viðkvæmur gagnvart því þegar hv. þingmaður er með dylgjur um það að við séum af annarlegum ástæðum að reyna að koma í veg fyrir úthlutun byggðakvóta þegar hann veit betur. Hann veit að þetta byggir m.a. á því að fram hafa komið sérstakar óskir frá tilteknum sveitarfélögum um að endurúthluta byggðakvótanum og sjávarútvegsráðuneytið hefur verið að reyna að bregðast við því til þess m.a. að koma til móts við sveitarfélögin. Hv. þingmaður virtist alveg hafa gleymt því. Var hann sofandi, var hann fjarstaddur eða vissi hann ekki hvað hann var að gera þegar hann greiddi atkvæði með þeim lagabreytingum sem samþykktar voru í vor? Hv. þingmaður talar eins og hann hafi hvergi komið nærri. Hv. þingmaður er farinn að þvo algerlega fortíðina af sér sem er undarlegt vegna þess að hann á glæsilega fortíð í góðu stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.