135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

4. fsp.

[13:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikið fagnaðarefni að búið er að leysa í rauninni húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands með þeim gjörningi sem undirritaður var á vordögum. Ég held að þar skipti miklu máli framlag Reykjavíkurborgar þar sem efnt var m.a. gamalt loforð um að Reykjavíkurborg mundi leggja til lóð undir Listaháskóla Íslands.

Síðan er hitt að lög um Náttúruminjasafn hafa lengi verið til umræðu í þinginu og loksins voru þau samþykkt á síðasta þingi. Ég hef margítrekað og margoft sagt að núna er það helsta verkefni m.a. nýskipaðs forstöðumanns Náttúruminjasafns, dr. Helga Torfasonar, að móta stefnu og framtíðarsýn safnsins í samráði við samfélagið. Í samvinnu m.a. við fræðasamfélagið, háskólana og fleiri sem hlut eiga að máli. Það skiptir því miklu máli að við nálgumst það mál með opnum huga. Hvort heldur Náttúruminjasafnið rís í framtíðinni í Vatnsmýrinni eða í Laugardalnum eða hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu, þá skiptir mestu máli að við höfum skýra sýn um það hvert ber að stefna með Náttúruminjasafninu. Safnamál heimsins hafa, eins og hv. þingmaður veit mætavel, breyst mjög mikið á undanförnum 15–20 árum. Náttúruminjasafn í dag er allt annað en það Náttúruminjasafn sem hefði risið hér fyrir 15–20 árum. Við eigum að nýta okkur þær framfarir sem hafa orðið í safnamálum og við eigum að fara með opnum huga inn í framtíðina og hafa að mínu mati hlutverk Náttúruminjasafnsins mjög víðtækt. Við eigum heldur ekki að binda hendur þess forstöðumanns og þeirra sem koma að málinu með því að rígnegla og geirnegla það niður í Vatnsmýrina. Við eigum að hafa opinn huga hvað varðar staðsetningu Náttúruminjasafns.