135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

4. fsp.

[14:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Deiliskipulagið í Reykjavík hefur ekkert breyst þannig að það sé á hreinu — ekki svo ég viti. Aðalatriðið í þessu máli er að við komum tveimur málum á gott skrið. Við erum að koma Listaháskólanum undir eitt þak og lausnin fólst í þessu samkomulagi sem gert var við Reykjavíkurborg annars vegar og hins vegar við Listaháskólann. Í því fólst þetta samkomulag. Við viljum að Listaháskólinn komist undir eitt þak eigi síðar en 2009. Það er margt sem mun gerast 2009, m.a. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið.

Síðan er hitt, að koma náttúruminjasafninu í ákveðinn farveg. Við ætlum að byggja hér glæsilegt náttúruminjasafn sem vonandi verður líka vísindasafn og fleira og nægilega aðlaðandi fyrir m.a. grunnskólanemendur þessa lands til þess að sækja og yrði til stuðnings skólakerfinu í heild. Við erum með þetta mál í ákveðnum farvegi og eins og sakir standa erum við í stefnumótun varðandi framtíðarsýn náttúruminjasafnsins. Lengra er málið ekki komið.