135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ákvæði um búferlastyrki til atvinnulausra hafa verið í lögum a.m.k. frá árinu 1981 eða í 26 ár. Á síðustu tíu árum hafa einungis verið veittir átta styrkir alls, að fjárhæð um 310 þús. kr. Hver styrkur hefur numið 50–75 þús. kr. Vegna þess hve styrkirnir hafa lítið verið nýttir og þar sem lagastoð þeirra var endurnýjuð með lögum nr. 54/2006, sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi síðasta sumar, líka af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, hefur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs haft til umfjöllunar hvort breyta eigi fjárhæð þeirra.

Drög að reglum um búferlaflutning vegna starfstilboða til handa atvinnulausum hafa fengið talsverða umræðu og ýmsir orðið til að gagnrýna þau. Það er að hluta til eðlilegt í ljósi aðstæðna og þess að umfjöllun um þau hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs kom upp á sama tíma og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Ég tel að það hafi verið óheppileg tímasetning að fara í endurskoðun á þessum búferlastyrkjum á sama tíma og boðaðar hafa verið uppsagnir í fiskvinnslunni vegna þorskaflaskerðingar. Ákvæði um þessa styrki hafa verið lengi í lögum, eins og ég sagði, og ekki áður verið gagnrýnd. Nú þegar styrkirnir eru settir í samhengi við uppsagnir og þorskaflabrest hefur túlkunin verið sú að verið sé að ýta undir brottflutning af landsbyggðinni sem ég tel ekki alls kostar sanngjarna túlkun. Ég legg áherslu á að ákvörðun um framhald málsins verði að taka á yfirvegaðan hátt. Að því vil ég stuðla og í samráði við sem flesta í samfélaginu. Komist menn að þeirri niðurstöðu að styrkir af þessu tagi séu ekki réttlætanlegir hljótum við að breyta þeim reglum sem nú hafa verið í lögum vel á þriðja áratug.

Ég vil hins vegar upplýsa að samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér hjá Vinnumálastofnun í gær hafa engar umsóknir um styrki vegna búferlaflutninga borist undanfarna daga og vikur þrátt fyrir mikla umræðu um tilvist þeirra, enda er það svo að þessir styrkir eru ætlaðir þeim sem raunverulega ætla að flytja vegna nýrra starfstilboða og hafa verið atvinnulausir þegar þeir flytja vegna nýrra starfa. Umsækjendur um styrki þurfa að leggja fram reikninga sem sýna fram á raunverulegan kostnað við flutningana og yfir þá er farið. Þannig er þetta í raun endurgreiðsla á útlögðum kostnaði.

Það er því ekki sjálfgefið að afnema þetta ákvæði og þennan rétt sem hefur verið í gildi um langt skeið fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir og vilja nýta þennan kost. Það þarf að skoða vandlega hvort afnema eigi rétt þeirra eða draga úr honum. Ég varpa því hér fram og vil hlýða á öll sjónarmið sem fram kunna að koma þar að lútandi.

Til upplýsingar fyrir háttvirta alþingismenn hefur verið fjallað um reglur um búferlaflutning í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og málið verið rætt þar aftur eftir að gagnrýni kom fram á búferlastyrkinn. Þrátt fyrir það hefur stjórnin ekki lagt fram neinar breytingar á fyrri ákvörðun um að hækka styrkinn í 184 þúsund. Þeir sem eiga aðild að stjórn sjóðsins og þá þessari ákvörðun eru fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Ég hef enn ekki fengið málið á mitt borð en mun koma þeim boðum til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að fyrirliggjandi drög að reglum verði send til umsagnar til nýskipaðra vinnumarkaðsráða, sem eru átta talsins um land allt. Í þeim ráðum eiga sæti, auk fulltrúa félagsmálaráðherra, fulltrúar tilnefndir af samtökum launafólks og atvinnurekenda á hverju svæði auk fulltrúa menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og sveitarfélaga. Ráðunum, sem skipuð eru heimamönnum, er m.a. ætlað að greina stöðu og þróun atvinnumála á sínu starfssvæði og gera tillögur að vinnumarkaðsúrræðum og það fer ágætlega á því að þetta mál verði þar til umræðu áður en lengra er haldið.

Jafnframt mun ég leggja til að regludrögin verði send Sambandi íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Í ljósi umsagna þessara aðila verður tekin ákvörðun um framhald málsins. Ef ekki næst sátt um ákvæðið eða framkvæmd þess kemur að mínu mati til greina að fella það úr lögum eða breyta því í ljósi umfjöllunar um það en slíkar breytingar kæmu þá til kasta Alþingis.