135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þegar manni blöskrar eða finnst eitthvað keyra um þverbak þá er oft gripið til sterkra lýsingarorða. Ég verð að segja að þegar nýjustu tillögur ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og byggðamálum hafa á síðustu dögum verið dregnar svo sterkt inn í umræðuna, að fara að borga fólki sérstaka hvatningarstyrki, stuðningsstyrki til að flytja burt, þá finnst mér taka út yfir allan þjófabálk. Fyrst eru fiskveiðiréttindin tekin af fólkinu með óréttlátu kvótakerfi sem hefur leitt til eignaupptöku á auðlindum íbúanna meðfram ströndum landsins og þegar menn þykjast komnir eins langt og komist verður með því þá skal fara þessa leið, að kaupa það burt.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. félagsmálaráðherra um annað fyrirtæki, því mér finnst þetta vera nánast eins og fyrirtækjarekstur eins og hæstv. ráðherra lýsti þessu, hvenær borgar sig að kaupa fólk burtu, að álver fyrir austan á Reyðarfirði, sem er bara ríkisrekin framkvæmd, byggt af ríkinu er að bjóða flutningsstyrki, reyna að kaupa fólk, m.a. af Vestfjörðum, til að koma austur til vinnu. Ég heyri þar nefndar enn hærri upphæðir sem fólkinu á að hafa verið boðið til að flytja burt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra fylgst með þessu og finnst henni þetta réttmætt?

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Var það liður í þessum byggðaaðgerðum að lækka lán Íbúðalánasjóðs um 10% sem bitnar nákvæmlega á þessu sama fólki, landsbyggðarfólkinu sem hæstv. ráðherra ætlar líka að bjóða flutningsstyrki til að flytja burt? Nei, ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra að afturkalla lækkun á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs. Það væri bót fyrir íbúa landsbyggðarinnar.