135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:22]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. þingforseti. Góðir þingmenn. Ég hef löngum sagt að besta byggðastefnan væri að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Það er eina raunhæfa byggðastefnan og eina raunhæfa byggðamálið sem við getum sinnt fyrir fólkið í landinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hvort Samfylkingin ætli að viðhalda þessu rangláta fiskveiðistjórnarkerfi. Við vitum hver afstaða sjálfstæðismanna er í þeim málum en mig langar að vita hver stefna Samfylkingarinnar er. Ætlar hún að láta þetta yfir sig ganga. Hv. þm. Helgi Hjörvar gat þess í viðtali um daginn á Útvarpi Sögu að búið væri að stela fisknum úr sjónum frá fólkinu og afhenda fáum útvöldum. Ég vil fá skýr svör frá Samfylkingunni um hvað þau ætla sér í náinni framtíð í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hvort þau ætli að láta þetta yfir sig ganga og verja hið rangláta fiskveiðistjórnarkerfi.

Það er auðvitað sorglegt að þingmenn eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson skuli ekki átta sig á því að þetta er út af fiskveiðistjórnarkerfinu en ekki öðru. (Gripið fram í.) Það eru 150 manns í Þorlákshöfn, sveitarfélaginu sem Kjartan býr í, sem eru að missa atvinnu sína út af mótvægisaðgerðum og kvótaleysi. En það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að strengjabrúður (Forseti hringir.) eins og Kjartan Ólafsson og fleiri (Forseti hringir.) hjá sægreifunum (Forseti hringir.) ...