135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:27]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Herra forseti. Sú umræða sem að undanförnu hefur átt sér stað um fólksflutningastyrki er í senn bæði niðurlægjandi og móðgandi fyrir landsbyggðarfólk. Hugmyndir af þessu tagi lýsa sömuleiðis algerri uppgjöf stjórnvalda við að leysa atvinnuvanda landsbyggðarinnar og bera vott um ráðaleysi gagnvart ástandi sem ríkisstjórnin hefur sjálf komið landsbyggðinni í. Nú er ekki lengur leitað lausna á vandanum heldur á að flytja hann í burtu. Nú er það fólkið sjálft sem er vandinn, landsbyggðarfólkið og byggðirnar.

Í stað þess að einhenda sér í að færa atvinnutækifæri til fólks, styrkja innviði samfélaganna, og vekja von að nýju í brjóstum þeirra sem vilja byggja landið er nú rætt af fullri alvöru um að hvetja fólk til að flytja í burtu frá heimilum sínum, fá það til að yfirgefa heimabyggðir sínar.

Þetta vekur upp ýmsar spurningar. Hvert á að flytja fólkið? Hvaðan á helst að færa það? Hvert á að beina fólksstraumnum? Er væntanlegur fólksflutningsstyrkur háður skilyrðum um hvert fólk vill fara? Mun fólksflutningastyrktarsjóðurinn jafnvel veita styrkþegum einhvers konar ráðgjöf, vegvísi til fyrirheitna landsins? Stendur kannski til að bjóða flutningana út, markaðsvæða vandann þannig að einhverjir geti grætt á honum?

Hæstv. samgönguráðherra sem er ekki í salnum. Hann þyrfti þá ekki lengur að tala um jöfnunarstyrki til landsbyggðarinnar eins og hann hefur gert síðustu áratugina, þegar enginn verður eftir til að byggja landið. Þvert ofan í svokallaðar mótvægisaðgerðir, sem ætlaðar voru til varnar atvinnulífinu í landsbyggðinni, til varnar byggð í landinu, eru nú uppi hugmyndir um hvernig best er að koma fólkinu af landsbyggðinni, flytja það í burtu. Eru það orðnar einhvers konar mótvægisaðgerðir gegn mótvægisaðgerðunum?

Landsbyggðinni stendur ógn af ríkisstjórn sem gefur hugmyndum um fólksflutninga af þessu taginu undir fótinn. Það er kannski kominn tími til þess núna að gert verði ógnarmat fyrir landsbyggðina vegna þeirrar hættu sem af henni steðjar þegar hugdettur af þessu tagi fá hljómgrunn meðal stjórnvalda.