135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:29]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að skoða eigi þessi mál nánar og hafa samráð, m.a. við fólkið í byggðunum, um hvernig verði haldið á málum. Það er nefnilega staðreyndin að það væri merki um uppgjöf ef fara ætti að veita fólki rausnarlega styrki til að flytja burt úr hinum dreifðu byggðum, merki um uppgjöf nýrrar ríkisstjórnar gagnvart þeim vandamálum sem blasa við landsbyggðinni. Því væru það mjög slæm skilaboð.

Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu. En jafnframt vil ég biðjast undan þeirri ræðu sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson flutti áðan, um að við megum ekki taka upp mikilvæg mál sem snerta landsbyggðina og ræða á opnum vettvangi. Það er náttúrlega ekki boðlegt. (GuðbH: Þið eigið að viðurkenna að þið hafið sjálfir flutt ...)

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um að nú þurfum við að einbeita okkur að því að ríkisstjórnin standi við stefnuskrá sína. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar sem hv þingmaður styður? Jú það á að leggja niður flutningsjöfnun á eldsneyti, 400 millj. kr. Þannig mun eldsneytið á Þórshöfn, bensínið hækka um 3,30 kr. og olían um 2,20 kr. Þetta er forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar.

Ég held að það sé rétt að við ræðum það úr ræðustóli Alþingis þrátt fyrir að hv. þm. Guðbjartur Hannesson áfellist okkur fyrir það. Það þarf nefnilega að ræða þessi mál opinskátt. Ég segi að hæstv. félagsmálaráðherra eigi að skammast sín fyrir þá ákvörðun sem hæstv. ráðherra tók, að lækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs á landsbyggðinni úr 90% ofan í 80%, skammast sín segi ég því hæstv. ráðherra ræddi oft um það að fyrri ríkisstjórn ætti að skammast sín þegar hún tók ákvörðun um sömu hluti á síðasta kjörtímabili. Þáverandi félagsmálaráðherra, (Forseti hringir.) hv. þm. Magnús Stefánsson sá að sér og dró ákvörðunina til baka (Forseti hringir.) en fyrsta verkefni nýs félagsmálaráðherra var að ráðast að landsbyggðinni með þessum hætti.