135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar, um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu, sem fulltrúar í þingflokki Vinstri grænna hafa lagt fram og hafa reyndar gert áður. Í grunninn séð erum við framsóknarmenn ekki að öllu leyti sammála Vinstri grænum þegar kemur að þessum málum eins og umræðan á síðasta kjörtímabili bar vott um. Við höfum til að mynda viljað gera skýran greinarmun á einkarekstri og einkavæðingu, það er gömul umræða sem hefur farið fram á vettvangi þingsins. En í ljósi þess að nýir tímar hafa runnið upp í stjórnmálunum, og ný ríkisstjórn, sem hefur kennt sig við samráð og samræðu, hefur tekið við, tel ég að ganga eigi til móts við þingsályktunartillöguna og skoða þessi mál heildstætt. Ég held að það ætti ekki að vera neitt feimnisatriði fyrir þingmenn að velta þeirri spurningu fyrir sér hvernig þær breytingar sem við höfum staðið fyrir hafa reynst almenningi, hvernig breytingar hafa reynst þeim sem greiða fyrir þjónustuna, hvernig þær hafa komið út gagnvart þeim sem veita þjónustuna og þar fram eftir götunum. Ég er sannfærður um að margt af því sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir hafi verið af hinu góða þó að félagar mínir í Vinstri grænum séu því ósammála.

En umfram allt eigum við ekki að vera feimin við að skoða þessi mál og taka þau til umræðu og það er það sem þingsályktunartillagan gengur út á. Ég hef ekki trú á að mikil andstaða verði við það af hálfu stjórnarflokkanna, þessi nýja ríkisstjórn hefur gefið sig út fyrir það að standa fyrir samráð og samræðu. Ég held því að enginn ætti að hræðast að fara í efnislega umræðu um þessi mál. Fram undan eru nýir tímar, tímar breytinga í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnin hefur gefið það út að breytingar muni eiga sér stað. Sjálfstæðismenn hafa sagt að nú sé hægt að ráðast í hluti sem ekki hefði verið hægt að gera með framsóknarmönnum, og þar erum við að tala um heilbrigðismál. Er þá óeðlilegt að við veltum fyrir okkur opnum heimildargreinum sem eru í fjárlagafrumvarpinu sem þingið fjallar nú um? Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. Samningar, sem fela í sér fjárskuldbindingar, skulu lagðir fyrir ráðherra heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.“

Margir sjálfstæðismenn hafa velt því fyrir sér hvernig standi á því að Framsókn sé allt í einu orðin svona hrædd við heimildargrein sem hefur verið í mörgum undangengnum fjárlagafrumvörpum. Staðreyndin er sú að Framsóknarflokkurinn hefur farið með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið síðustu 12 árin. Það er alveg rétt að Framsóknarflokkurinn er ekki tilbúinn að fara út í taumlausa einkavæðingu á sviði heilbrigðismála hér á landi og get ég bent á fyrir hvað hann hefur staðið í þeim efnum og bent á þá yfirlýsingu sjálfstæðismanna að nú sé hægt að ráðast í hluti sem ekki hefði verið hægt að ráðast í með Framsóknarflokknum.

Ég horfi til ýmissa samfylkingarmanna sem eru væntanlega reiðubúnir að leggja út á slóð einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Öðruvísi mér áður brá. Öðruvísi töluðu þessir menn fyrir síðustu kosningar en nú eru þeir reiðubúnir að feta stíginn með frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins í átt að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ummælin hræða og ljóst er að miklir óvissutímar eru fram undan í heilbrigðis- og velferðarmálum þjóðarinnar. Í því ljósi held ég að það sé nauðsynlegt að við tökum opna umræðu um þessi mál og setjum á fót nefnd til að ræða þau. Ég er reyndar ekki alveg sammála Vinstri grænum í því að fallið skuli frá öllum áformum um frekari einkavæðingu eða einkarekstur þar til niðurstöður skýrslunnar liggja fyrir. Ég held að við þurfum að taka efnislega afstöðu til einstakra verkefna hvað þau mál áhrærir og það þurfum við náttúrlega að gera á vettvangi þingsins. Þess vegna verðum við, hæstv. forseti, að ná þessari heimildargrein út sem veitir heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sjálfdæmi um það að ráðast í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, óháð því hvað þingið hefur um málið að segja, því að með heimildargreininni er farið fram hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar og umræðan fer ekki fram á opnum vettvangi.

Hæstv. forseti. Verkin hræða líka. Við getum horft til þess hvernig farið var með þær heimildargreinar sem snerta Grímseyjarferjuna, hvernig ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa farið með þær heimildargreinar. Það er víti til að varast og ég hvet hv. þingmenn til þess að huga að þessum heimildargreinum við 2. umr. fjárlaga. Það er mjög mikilvægt að framkvæmdarvaldinu séu ekki gefnar allt of sveigjanlegar heimildir til að ganga fram hjá þinginu sem leiðir hugsanlega til gerbreytingar á heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Hæstv. forseti. Ég er líka einn af þeim sem hef hugsað mikið um þessar einkaframkvæmdir og það er alveg rétt, sem kemur fram á bls. 12 í þingsályktunartillögunni, að fjárfestingarkostnaður ríkisins í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs er náttúrlega miklu lægri og vaxtakostnaðurinn er miklu lægri hjá ríkinu en hjá einkaaðilum úti í bæ. Það er því mjög eðlilegt að margir sjálfstæðismenn hafi spurt og, að því er mig minnir, fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum: Er það eðlilegt að aðilar úti í bæ fjármagni verkefni sem ríkissjóður ætti annars að inna af hendi og gæti vel gert? Það er umhugsunarefni hvaða slóðir einstök sveitarfélög hafa fetað í þeim efnum og ég held að það þyrfti einnig að taka þá umræðu inn í nefndarstarfið sem hér er lagt til að fari fram.

Hæstv. forseti. Ég lýsi mig í grundvallaratriðum sammála því að við förum í opna og lýðræðislega umræðu um það hverju þessar breytingar hafa skilað okkur og hvert við eigum að stefna í þessum efnum. Eins og ég rakti áðan hafa vinstri grænir og framsóknarmenn ekki að öllu leyti verið sammála í þessum efnum og við getum vitnað til þeirrar umræðu og orðaskaks sem fór fram á síðasta kjörtímabili. Þá umræðu munum við taka á vettvangi þessarar nefndar óhræddir og fordómalausir. Ég legg til, hæstv. forseti, að þingsályktunartillagan verði samþykkt með því fororði að mér finnst fulllangt gengið í því að fallið skuli frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur. Ég vil að við fellum þessar heimildargreinar út og tökum þau verkefni sem til gætu komið til umræðu á vettvangi þingsins. Við skulum varast það að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi rúmar heimildir til þess að ráðast í ýmsar breytingar sem þeir hafa boðað að undanförnu.