135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir góðar undirtektir við það mál sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum hér. Þetta er fyrsta þingmál sem flokkurinn flytur á þessu hausti, tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu. Framsögumaður málsins, hv. þm. Ögmundur Jónasson, rakti hvað hefur verið að gerast á undanförnum árum í einkavæðingu, t.d. í samfélagsþjónustu og fjarskiptum og nú er verið að horfa til nýrra þátta, þ.e. markaðsvæðingar raforkukerfisins. Það er því rétt að staldra við áður en lengra er haldið í þeim efnum og taka út hvort þetta hafi verið vegferð til góðs, hvort ekki séu einhverjir annmarkar á. Eins og ég segi, herra forseti, þá vil ég þakka ágætar undirtektir Birkis Jóns Jónssonar en þetta ætti að vera þeim fagnaðarefni, jafnt þingmönnum Framsóknarflokksins sem Sjálfstæðisflokksins, sem hafa það sem trúaratriði að það verði að einkavæða alla hluti. Þessir þingmenn hafa þá fengið staðfestu á trú sinni, einkavæðingartrúnni, sem hefur í rauninni ráðið ferð um of.

Ég vil nefna nokkur dæmi um hvernig ég hef upplifað þessa einkavæðingu á sl. árum, t.d. einkavæðingu Símans og fjarskipta. Í fyrstu var Landssímanum breytt í hlutafélag og þá settu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins upp mikinn helgisvip og sögðu: Það stendur alls ekki til að einkavæða eða selja Símann, bara að breyta honum í hlutafélag af því að það er sagt að það sé miklu betra, en hann verður ekki seldur.

Svo liðu þrjú til fjögur ár og þá var Síminn kominn á hraða vegferð og var síðan seldur, þetta þjónustutæki sem er hvað mikilvægast í að tryggja jafna búsetu og jöfn lífskjör og möguleika um allt land, en markmiðið með Símanum var að hægt væri að beita styrk hans til þess. Það var mjög táknrænt að um leið, eiginlega sama dag og Síminn var seldur lokuðu þjónustuskrifstofur Símans á Siglufirði, Sauðárkróki, Blönduósi, í Vík í Mýrdal og á Hvolsvelli, minnir mig. Þjónustustöðvar sem höfðu verið viðbragðs- og þjónustunet og skapað öryggi í þjónustunni þeim var lokað, eða eins og sagt var vegna þess að nú bar Símanum aðeins að hugsa um arð eigenda sinna, arð þess fjármagns sem eigendur hans höfðu lagt í. Samfélagsskyldurnar voru seldar og komu málinu ekkert við.

Það er reyndar mjög athyglisvert að þetta átti að leiða til ódýrari þjónustu en ekki voru liðin nema þrjú ár frá sölu Símans þegar gjaldskrá eða kostnaður vegna t.d. GSM-síma hafði hækkað um 40% á Íslandi, þegar verð á sambærilegri þjónustu hafði staðið í stað eða jafnvel lækkað í löndunum í kringum okkur. Þjónustan hafði ekki vaxið, það hafði ekki fjölgað svo mikið notendum, heldur hafði einkavæðingin haft þetta í för með sér.

Þjónustan hefur breyst, ég þekki mörg dæmi þess að fólk hefur orðið að bíða vikum saman eftir að fá þjónustu, fá gert við bilanir eða að fá nýtt inntak. Bara núna síðastliðið sumar hringdi í mig fólk á ferðaþjónustubýli og var þá búið að bíða í tvær vikur eftir því að fá þjónustu hjá Símanum til þess að fá viðgerð á símanum heima hjá sér. Svo var allt í einu hægt að selja grunnnetið frá og búa til sérstakt fyrirtæki, sem var ekki hægt þegar verið var að einkavæða hann því þá var sagt að hann yrði svo verðlaus á eftir. Síðan var hægt að selja hann og skipta því út og viðkomandi fyrirtæki gat farið að selja sjálfu sér aðgang að grunnnetinu.

Ég vil líka minnast á orkuveiturnar. Í þessu frumvarpi, í lögunum eru heimildir til hinna ýmsu hluta eins og t.d. að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, bara slétt setning. Hvernig var hún svo seld? Jú, þegar þingið var farið heim og hvergi var tekið fram í fjárlagafrumvarpinu hvernig átti að fara með söluna, þá var hún seld með þeim hætti að sveitarfélögin mega ekki bjóða í hana, þeir mega ekki bjóða í sinn hlut. Hér á Alþingi var einmitt rætt um að það væri hægt að selja sveitarfélögunum hlut þeirra í Hitaveitu Suðurnesja.

Hvað sjáum við svo aftur? Hér stendur aftur nákvæmlega sams konar heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, nákvæmlega eins heimild. Ríkissjóður á liðlega 20% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og á grunni þeirrar heimildar geti ríkisstjórnin síðan, fjármálaráðherrann, selt hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og gert það að kröfu að það sé bara Geysir Green Energy eða Glitnir banki eða hvað það nú er — eða bara Baugur beint og milliliðalaust — keypt þann hlut, það er þessi opna heimild og þá er hrein opin heimild áfram. Og hvað er það sem Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á? Jú, hún á einn stærsta og vatnsmesta hver á Íslandi, Deildartunguhver, (Gripið fram í: Í heimi.) í heimi, sem á sínum tíma var tekinn eignarnámi því að það þótti svo brýnt almannahagsmunamál að taka vatnsréttindin þar eignarnámi og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á þau eignarréttindi.

Á grundvelli þessarar litlu, stuttu setningar sem hér stendur um „heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarness“ er hægt að fara með Deildartunguhver á markað alveg nákvæmlega eins og verið er að fara með hitaréttindi Hitaveitu Suðurnesja, Krísuvík, Svartsengi, allan Reykjanesskagann er hægt að fara með á markað og selja hann, sama hvort það eru innlendir eða erlendir spekúlantar sem byrja á því áður en þeir fara að vinna að því skammta sér svo og svo miklar heimildir til þess að hirða fé úr almannasjóðum, t.d. 700 milljónir, það þykir bara smotterí og verðlítill maður sem ekki tekur a.m.k. það.

Á grundvelli þessara heimilda er hægt að fara í bullandi einkavæðingu á Deildartunguhver eins og við upplifðum framkvæmd laganna (Forseti hringir.) varðandi Hitaveitu Suðurnesja. (Forseti hringir.) Er það þetta sem við viljum, herra forseti? Nei, þetta viljum við sko alls ekki. (Forseti hringir.) Það er því vissulega ástæða til þess að staldra við og stoppa og segja: (Forseti hringir.) Erum við á réttri leið?