135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:23]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna tillögu til þingsályktunar. Það hefur verið gerð ítarleg grein fyrir efni hennar og aðdraganda og ég ætla svo sem ekki að ræða það. Ég vil þó gera athugasemd við eitt, það er að mér þykir nokkuð lagt upp með þá skoðun að menn hafi ráðist í einkavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja einhvern veginn án þess að athuga sinn gang, án þess að kanna málið, án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum, aðstöðu eða aðstæðum í hvert sinn.

Nú er það þannig að á vegum ríkisstjórnarinnar hefur verið starfandi einkavæðingarnefnd til margra ára og á vettvangi hennar fer fram í hvert skipti sem stendur til að selja eða einkavæða ríkiseignir mjög umfangsmikil og vönduð vinna við að kanna bæði hvað snýr að aðferðafræði við sölu og líka hvaða afleiðingar viðkomandi einkavæðing hefur. Þess vegna var það, af því að hv. þm. Jón Bjarnason nefndi það hérna varðandi sölu Símans, að árum saman var aldrei möguleiki að einkavæða það fyrirtæki einfaldlega vegna þess að þegar menn skoðuðu það mál lá fyrir að það var ekki markaður, það var ekki neinn samkeppnismarkaður á því sviði. Þess vegna var tómt mál um það að tala að ráðast í einkavæðingu Símans fyrr en það voru komin önnur fyrirtæki sem störfuðu á þessum markaði og einnig að þær tæknibreytingar væru orðnar á þeim markaði sem gerðu það að verkum að hægt væri að einkavæða það fyrirtæki, þ.e. Símann.

Annað vil ég líka nefna og það kemur inn á það sem flutningsmaður tillögunnar nefndi áðan og snýr að hugmyndafræðinni. Mér þykir það alltaf áhugavert þegar menn vilja ræða hugmyndafræði og ég tel reyndar og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um að það er það sem skiptir mestu máli í störfum okkar hér í þinginu hvaða hugmyndafræði við stöndum fyrir, hverjar grundvallarskoðanir við höfum. Mér eru skoðanir hv. þingmanns mjög vel ljósar og ég tel að hann hafi gert mjög vel grein fyrir sinni hugmyndafræði í gegnum tíðina og ég ætla að þingmanninum séu nokkuð ljósar þær skoðanir sem ég stend fyrir. Það er þó ekki þar með sagt, þó að menn hafi skýra hugmyndafræðilega sýn, að reynslurök eða hver niðurstaðan er sem menn horfast í augu við, t.d. varðandi einstaka einkavæðingar eða önnur þau atriði sem falla undir svið stjórnmála, sem að sjálfsögðu skiptir máli hvaða afleiðingar hafa, þá er það hreinn útúrsnúningur að ætla að þó að menn hafi ákveðna hugmyndafræðilega sýn að þeir láti sig það engu varða hver niðurstaðan er, en oft er það þannig að það veldur miklu hvernig framkvæmt er. Og ég veit að menn geta verið sammála um að stundum hefur mönnum heppnast vel við einkavæðingu, stundum ekki eins vel. Það er aldrei þannig að þessi mannanna verk séu yfir vafa hafin, langt í frá.

Síðan tók ég eftir einu í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þar gætti einhvers misskilnings varðandi sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Það var ekki þannig að sveitarfélögunum væri bannað að kaupa þann hlut eða bjóða í hann, langt í frá. Sveitarfélögin höfðu forkaupsrétt þannig að þau höfðu rétt til þess að leysa þennan hlut til sín ef þeim hugnaðist svo, það lá alveg fyrir. Það sem voru settar skorður við, af því að þarna var um að ræða sölu ríkiseigna, var að ríkið sjálft eða hið opinbera kæmi að þeim kaupum, það var það sem var sett upp. Sveitarfélögin sem áttu í Hitaveitu Suðurnesja gátu leyst til sín hlutina af því að þau höfðu forkaupsrétt og það er auðvitað mikilvægt atriði að menn átti sig vel á því.

Hvað varðar afleiðingarnar af einkavæðingunni á Íslandi geta menn auðvitað rifist um það fram og til baka en ég tel að það sé auðsætt að þegar horft er yfir sviðið hafi afleiðingarnar verið til hins góða. Við skulum bara líta á bankakerfið. Vitanlega geta menn rifist um hvernig var staðið að einkavæðingu bankanna, það er ekkert allt hafið yfir vafa þar. En afleiðingarnar fyrir íslenskt samfélag, breytingarnar sem hafa orðið á íslensku samfélagi vegna sölu ríkisbankanna eru alveg gríðarlegar. Efnahagslíf okkar hefur ekki bara tekið stakkaskiptum, það hefur eflst til mikilla muna. Gamli draumurinn um að losna undan því að vera svo háð sjávarútvegi að við ættum allt okkar undir því hversu margir þorskar væru í sjónum hefur ræst.

Það sem ræst hefur því nýja hagkerfi sem er búið að búa til er að mestu máli skiptir hvaða menntun við bjóðum upp á í landinu vegna þess að við höfum breytt hagkerfinu þannig að það er menntunin sem skilar mestu. Það er menntunin og aftur menntunin sem er lykilatriðið.

Stór þáttur í því, og horfið bara á bankastofnanirnar, horfið á menntastigið sem þar er inni, horfið á fjölda starfsmanna sem bæði eru að vinna hér á Íslandi og erlendis, þá sjá menn það auðvitað að þessi gata var gengin til góðs. Ég er líka þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að einkavæða þau fyrirtæki sem nefnd voru hér áður af flutningsmanni tillögunnar, þ.e. prentsmiðjuna og SR-mjöl og hvað þetta hét nú allt saman, ég held að það hafi verið skynsamlegt og það voru ekki einhver stór rifrildi út af því, en það var tekist harkalega á um t.d. bankana og það var tekist harkalega á um Símann en ég tel að þær ákvarðanir hafi verið pólitískt réttar.

Hvað varðar þær hugmyndir eða þær fullyrðingar sem hér eru settar fram varðandi yfirvofandi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, þá liggur það alveg fyrir og er óumdeilanlegt frá mínum bæjardyrum séð og það er stefna Sjálfstæðisflokksins í því máli að þjónustan sé greidd úr almannasjóðum, þ.e. að tryggt sé að aðgengi manna að heilbrigðisþjónustunni sé án tillits til efnahags. Það grundvallarsjónarmið er ófrávíkjanlegt. En, og á það höfum við lagt áherslu, að þar sem hægt er að nýta kosti einkaframtaksins, þar sem hægt er að gera meira með peninga skattborgaranna, þar sem hægt er að búa til betri þjónustu fyrir skattborgarana með því að nýta kosti einkaframtaksins þá erum við að sjálfsögðu ekki svo bundin á hugmyndafræðilegan klafa að segja nei við slíkum kostum.

Ég óttast ekki að það sé skoðað vel hvaða afleiðingar einkavæðing hefur haft á Íslandi en ég get ekki fellt mig við uppsetninguna á þessari þingsályktunartillögu, því miður, vegna þess eins og kom fram hér hjá öðrum hv. þingmanni þá er gert ráð fyrir því að fallið skuli frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur þar til niðurstaða skýrslunnar liggur fyrir. Ég get ekki fellt mig við þetta vegna þess að ég tel að við getum rætt mjög ítarlega hér í þingsalnum og farið vel yfir þau mál sem gætu komið til umræðu ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ráðast í slík verkefni. Hér er sá salur sem við getum rætt það, hér getum við lagt fram öll þau gögn sem við viljum, það er hér sem ákvarðanirnar eru teknar. Ég hef því engar áhyggjur af því að menn ráðist fram í einkavæðingu nema að vel athuguðu máli, eins og menn hafa heldur ekki gert áður.

Ég fagna því þess vegna í sjálfu sér að þetta sé skoðað og það sé lagt á þetta mat en ég held að menn verði að gera það með aðeins öðrum hætti en hér er lagt til í þingsályktunartillögunni.