135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:31]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek hv. þingmann á orðinu. Hvernig leggur hv. þingmaður til að við stöndum að þessari umræðu og rannsóknum ef hann fellir sig ekki nákvæmlega við þá aðkomu sem við leggjum til?

Hann gagnrýnir mig fyrir að gera því skóna að menn hafi ráðist í einkavæðingu, iðulega að óathuguðu máli. Hann segir að einkavæðingarnefnd hafi staðið fyrir umfangsmikilli og vandaðri vinnu. Ég hef miklar efasemdir um þetta vegna þess að einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar var sett ákveðið verkefni, þ.e. að koma á einkavæðingu. Við óskum eftir að ræða sjálfar forsendurnar og reynsluna af einkavæðingunni, ekki endilega bara framkvæmdina. Við þekkjum hins vegar náttúrlega hvernig til hefur tekist í mörgum tilvikum.

Hv. þingmaður nefndi bankana. Ætlar hann að gefa sinn stimpil á einkavæðingu Búnaðarbankans, svo dæmi sé tekið, hvernig staðið var þar að málum? Vill hann kannski halda litla ræðu um öldrunarheimilið Sóltún, hvernig var staðið að því að ráðstafa því til Öldungs hf. og hvernig Aðalverktakar komu þar að málum? Þar átti í hlut fulltrúi í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar sem var stjórnarformaður í Aðalverktökum, sem fékk verkefnið í sínar hendur. Það var gagnrýnt af Ríkisendurskoðun á sínum tíma. Við skulum fara varlega í að tala um að vel hafi til tekist með einkavæðinguna.

Þegar hann síðan nefnir bankana þá þótti mér vænt um hvernig hann orðaði það. Hann talaði um þær breytingar sem orðið hefðu á íslensku samfélagi með einkavæðingu bankanna. Ég verð að segja að í því sambandi hef ég miklar efasemdir. Ég horfi til lýðræðisins, því sem er að breytast á því sviði um alla ákvarðanatöku í samfélaginu og hvað yfirleitt er að gerast í samfélagi okkar, um þá miklu og vaxandi misskiptingu sem við höfum orðið vitni að og á að hluta til rót sína að rekja til einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.)