135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir innlegg hans í umræðuna. Hann tekur undir að þörf sé á því að gera úttekt á því hvernig markaðsvæðing og einkavæðing almannaþjónustunnar hefur gengið, hvernig henni hefur reitt af. Hverju erum við bættari og hvernig eigum við að halda áfram? Auðvitað hefur sumt farið betur og annað verr. En það sæjum við með því að gera á því úttekt. Það ætti síst að vera Sjálfstæðisflokknum á móti skapi að gera á því rækileg úttekt því fá mál eru meira umdeild í samfélaginu en einmitt þessi.

Nýjasta dæmið er markaðsvæðing og einkavæðingarátak í Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, hvernig það er framkvæmt, að einkavæða og selja orkuauðlindirnar, ef það gengur eftir sem menn þar vilja. Ekki bara það, græðgisvæðingin er þar styrkt. Mönnum finnst allt í lagi að taka til sín 1,5 milljarða og segja: Ég er svona mikils virði í þessu eina máli. Við höfum klofið þjóðina í tvennt.

En ég ítreka spurningu til hv. þingmanns: Er ekki bara eðlilegt að við gerum á þessu ítarlega úttekt? Það má vel vera að við þurfum að flétta saman pólitíska úttekt og, eins og hv. þingmaður orðaði það, sérfræðingaúttekt. Við erum reiðubúin að finna þá leið til þess að úttektin verði gerð. En ég fagna því að hann taki undir að þetta sé mál sem sé vel þess virði að taka á.