135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:55]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti þetta vera góð ræða. (Gripið fram í: Þetta var það. …) Ég meina það og er ekki að gera neitt grín þótt ég sé hv. þingmanni ekki sammála um það að málflutningur okkar varðandi markaðsvæðingu og einkavæðingu hafi verið klisjukenndur. Ég nefni þingmálið sem við höfum reitt fram með ítarlegum reynslurökum og málefnalegum tilbúnaði.

Nú höfum við fengið viðbrögð nokkurra flokka við þingmálinu. Sjálfstæðisflokkurinn tekur að sumu leyti vel í þetta en vill hafa þrengri aðkomu að málinu en við gerum ráð fyrir í stað þess að allir pólitískir flokkar á Alþingi skipi sína fulltrúa fyrir sín sjónarmið í rannsóknarnefndina. Að sjálfsögðu mundu menn skipa sérfrótt fólk eða fólk sem þekkir til. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn eða fulltrúi hans við umræðuna að ríkisstjórnin hafi einvörðungu ákvarðanavald um þetta efni, þetta er svona þröng aðkoma.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem tekur vel í efni málsins hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir fyrir hönd flokks síns eða eigin hönd að hann muni samþykkja málið, að ráðist verði í rannsókn af þessu tagi. Mér heyrðist hann taka vel undir það. Hann minnti okkur á að Samfylkingin aðhyllist svokölluð umræðustjórnmál, hann vill komast út úr klisjukenndri umræðu og taka á málinu að því er mér skilst samkvæmt því sem hér er lagt til. Getur hann lýst því yfir að hann muni styðja málið og flokkur hans?