135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:58]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég get ekki lýst því yfir algjörlega fyrir hönd míns flokks að hann styðji þingsályktunartillöguna. Ef ég tala fyrir mig persónulega er ég ekki viss um að þetta sé rétta leiðin til að skoða málið. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það kunni að vera fullbratt að ætla sér að setja einhvers konar stopp á það sem kallað er markaðsvæðing í tillögunni meðan við ræðum þessi mál í nefndinni. Ég held að það sé fullbratt og ég held líka að umræða um einkavæðingu á undanförnum árum sem hefur verið gríðarlega umfangsmikil sé of stórt viðfangsefni fyrir eina nefnd að skoða. Ég held að afmörkuð mál, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, kalli á afmarkaðar spurningar.

Ég sé t.d. ekki alveg hvernig umræðan um markaðsvæðingu háskólastofnana eigi endilega heima í sömu nefnd og fjallar um einkavæðingu bankanna. Ég held að þetta séu það aðskilin umræðuefni að ég tel að við þurfum einfaldlega að ræða þessi mál á mörgum sviðum.

Tillaga mín væri sú og óskalending í þessu er að Alþingi væri á einhvern hátt gert virkara í því að fjalla um einstök einkavæðingarferli og einstök mál sem upp koma. Ég held að á undanförnum árum hefðum við margoft haft þörf fyrir sérstakar þingnefndir sem hefðu þá haft tækifæri til að kalla á sinn fund sérfræðinga til að fara yfir ýmis mál og komast að niðurstöðu um hvort rétt hafi verið að málum staðið eða ekki. (Forseti hringir.) Það held ég að sé rétta leiðin.