135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:02]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að almennt er vel tekið í það, heyrist mér, í þingsal að svona umfangsmikið samfélagsverkefni og svona umfangsmikill samfélagslegur þáttur eins og markaðsvæðing þarfnist alltaf umræðu og skoðunar, þarfnist þess að öll reynslurök séu uppi á borðinu. Hvernig við gerum það er hins vegar til umræðu hér. Ég hef lýst því hvernig ég telji að það verði best gert, það er að við skoðum einstök mál eftir því sem þau koma upp og höfum þannig virka skoðun í gangi á því hvernig einkavæðing samfélagsþjónustunnar fer fram.

Eitt dæmi sem mig langar að nefna í lokin á þætti mínum í umræðunni, og er til vitnis um það hversu flókinn málaflokkur þetta er, alla vega frá mínum bæjardyrum séð, varðar orkufyrirtækin og auðlindirnar. Þar horfum við upp á það að án þess að nokkuð hafi verið einkavætt er ákvörðunarvaldið í málaflokknum komið af hendi Alþingis. Þar þurfti engrar einkavæðingar við. Þar voru einfaldlega ýmis ákvæði í lögum sem fela t.d. sveitarstjórnum miklu meira ákvörðunarvald en þær ættu að mínum dómi að hafa í þessum málaflokki.

Það er ekki endilega einkavæðingin ein og sér sem er drifkraftur þess að ákvörðunarvald í samfélagsþjónustu fari frá Alþingi og ríkisstjórn heldur ýmislegt annað. Þetta er til vitnis um það hversu flókinn þessi málaflokkur er og líka til vitnis um það hversu mikilvægt er að við höfum stanslaust virka og opna umræðu um nákvæmlega þessi mál.