135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:48]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta þótti mér afskaplega ánægjuleg ræða. Ég er þess fullviss að félagi minn og samflokksmaður, hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, mun fara létt með það á næstu missirum að sannfæra þingmanninn um að sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til í þessum málum mun svara játandi þeim spurningum sem hv. þingmaður bar fram. Það verður tilhlökkunarefni fyrir okkur óbreytta þingmenn að fylgjast með því þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson tekur undir, að þessum skilyrðum gefnum, að menn beiti þeim kostum sem einkarekstur getur haft í för með sér í heilbrigðisþjónustunni. Það er tilhlökkunarefni og ég er sannfærður um að við getum glaðst sameiginlega yfir því í fyllingu tímans.

Síðan er hitt sem ég hafði ekki tíma til að koma að í svari mínu áðan en vil ítreka hérna varðandi útgjöld til þessara málaflokka. Við ræddum reyndar í síðustu viku, ég og hv. þingmaður, að það er alveg rétt að útgjöldin hafa hækkað hjá öðrum þjóðum. En þau hafa hækkað hraðar og meira á Íslandi en hjá þjóðum sem við berum okkur saman við. Það er ánægjuefni og við getum verið stolt yfir því. Þess vegna skiptir máli hvaða kerfi menn hafa búið til í kringum samfélagið. Ég segi að það að hafa einkavætt, lækkað skattana og einfaldað regluverk efnahagslífsins hefur skilað þjóðinni og þar með ríkissjóði gríðarlegum fjármunum sem við nýtum til þess að bæta almannaþjónustuna ár frá ári. Við gerum það á sama tíma og við getum staðið undir þeirri þjónustu á næstu áratugum ólíkt mörgum þeirra landa sem við berum okkur saman við. Við erum með lífeyrissjóði sem standa undir sér, við erum með ríkissjóð sem stendur undir sér og við erum með sjálfbæra þróun hvað þetta varðar. Þess vegna þýðir lítið að bera saman það sem við búum við og þær þjóðir sem við vitum að geta ekki haldið uppi því þjónustustigi sem þær gera núna vegna þess að þær hafa ekki klárað að borga í lífeyrissjóðina sína o.s.frv. Þetta er því lykilatriði og afleiðing af skynsamlegri stjórnarstefnu sem hefur verið hér frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fór að veita ríkisstjórn forustu árið 1991.