135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta hafa verið mjög áhugaverð umræða sem hér hefur farið fram og tel að mjög þarft sé að þessi mál verði skoðuð gaumgæfilega eins og fram kemur í tillögunni. Menn geta auðvitað haft á því misjafnar skoðanir hvernig nákvæmlega eigi að raða niður verkum, skipta í verkþætti o.s.frv. Það finnst mér eiginlega ekki vera efni málsins þannig lagað séð heldur fyrst og fremst að við ræðum það og fáum farveg til þess að skoða það vandlega eftir að í það hafa verið settir menn til verka til að kanna í hvaða farvegi þjóðfélagið hefur verið á undanförnum árum og missirum. Höfum við gengið götuna til góðs? Vafalaust — ég geng bara út frá því — er það ekki stefna okkar allra á hv. Alþingi að færa hlutina fram til góðs fyrir þjóðina í heild sinni? En okkur greinir auðvitað á um það hvaða markmiðum við höfum náð og hvernig við stígum þau skref.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hef efasemdir um það hvernig við höfum stigið þessi skref á undanförnum árum. Vafalaust kemur það engum á óvart að miðað við þær mörgu ræður sem ég flutti, m.a. um raforkumálin á sínum tíma þegar verið var að koma því hér í gegnum þingið, að ég hafði miklar athugasemdir við það hvert við stefndum á þeim vettvangi. Ég hef þær enn. Enda hefur komið í ljós að það sem átti að verða neytendum til hagsbóta í þeim efnum hefur ekki fært þeim ávinning, þvert á móti. Í mjög mörgum byggðarlögum hefur orkuverð hækkað verulega, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Þó að við höfum reynt að bæta úr ágöllum þess með því að taka upp niðurgreiðslur hefur það ekki dugað til og lífskjörin í hinum dreifðu byggðum hafa versnað fyrir vikið. Þetta er einn af þeim þáttum sem við þurfum vissulega að skoða og verk sem var fylgt eftir af síðustu ríkisstjórn. Ég tel að afleiðingarnar séu þær að við höfum í mörgum tilfellum alls ekki farið réttar leiðir í þeim efnum.

Ég tek hins vegar undir það að á sumum sviðum heilbrigðisþjónustunnar má örugglega nýta fjármagn betur með því að fela verkefni einkaaðilum og að þeim fylgi fjármagn til þess. Hins vegar á ekki að gera það með því að setja heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga. Það er alveg arfavitlaus aðferð og er okkur alls ekki til sóma að á bls. 55 í fjárlagafrumvarpinu standi eitthvað á þá leið að sjúkrahúsum sé heimilt að semja um ákveðna verkþætti og ef þeir samningar leiða til kostnaðarauka skuli fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra kynnt málið. Þetta er ekki vönduð stefnumótun.

Ég tel því fulla ástæðu til að fara ofan í þessi mál með þeim hætti sem hér er lagt upp með en það kann vel að vera að menn þurfi að skipa þessu öðruvísi og setja það í öðruvísi verkferla en hér er lagt til. Efnislega tel ég að tillagan sé þó af hinu góða. Þess vegna held ég að reyna eigi að vinna málið hratt og vel og fá um það góða yfirferð. Hvort setja eigi á fót sérstaka sérfræðinganefnd skal ég ekki um segja. Ég hefði talið að það væri alveg eins gott að fulltrúar þingflokkanna ættu aðild að slíkri nefnd en leituðu til sérfróðra manna um það að vinna með nefndinni o.s.frv. Ég held því að málið sé ekki í slæmum farvegi eins og það er sett upp af hálfu flutningsmanna en fyrst og fremst er það einfaldlega þannig að það er mikilvægt fyrir framtíðina að þingheimur komi að þessum málum með öðrum hætti en mér hefur fundist vera staðið að þeim á undanförnum árum og ég hef ekki heyrt annað af máli hv. þingmanna í dag en að flestir telji eðlilegt að skoða þessi mál þótt menn hafi misjafnar áherslur. Við erum auðvitað að vinna málið fyrir almenning og eigum að horfa til þess hvað kemur honum best og hvernig okkur tekst að fá sem mest út úr því fé sem við viljum verja til einstakra málaflokka.

Varðandi það að dæma um einkavæðingu á einhverjum sviðum fyrir fram að því er þetta varðar ætla ég ekki að tjá mig að því er varðar heilbrigðissviðið. Ég tel hins vegar að mjög margt sem snýr að orkugeiranum, vatninu, jarðhitanum, séu mál sem við þurfum í ljósi reynslunnar og umræðunnar að vanda okkur vel við og við höfum ekki stigið þar gæfuskref að undanförnu að mínu viti, hæstv. forseti.