135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:04]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að ræða mjög athyglisverða þingsályktunartillögu um að gerð verði ítarleg rannsókn á áhrifum afleiðinga markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar. Það er náttúrlega hægt að ræða mikið um þetta mál og þar er eins og sagt er verið að ræða grundvallarmál um það hvernig reka eigi hinar ýmsu stofnanir í samfélaginu.

Í greinargerð með tillögunni er vitnað í nokkrar skýrslur. Mér sýnist í fljótu bragði að þær sýni fram á eða þeir sem gerðu skýrslurnar og unnu þær að allt hafi algjörlega mistekist og það borgi sig alls ekki að vera með einkavæðingu. Þannig finnst mér í raun og veru koma fram í þingsályktunartillögunni eða greinargerð með henni næstum því gefin niðurstaða, eins og gengið sé út frá því að ef eitthvað er einkavætt og einkaaðilum er falið að reka eða sjá um rekstur á opinberum fyrirtækjum hljóti það að leiða til bölvunar fyrir þá sem eiga að njóta þjónustunnar.

Ég minnist þess, herra forseti, að árið 1972 var ég á fundi ungra sósíalista á Akureyri hjá Alþýðubandalaginu og eitt af því sem þar var mikið rætt var hvort leigubílastöðvar ættu að vera reknar af ríkinu eður ei og hvort leigubílar mættu vera í einkaeigu. Það er á vissan hátt í hugum sumra samfélagsþjónusta að vera með slíkan þjónustuakstur. (Gripið fram í.) Ég get alveg sagt það að á þessum tíma hugsaði ég þannig og var þeirrar skoðunar að það væri best að flest fyrirtæki samfélagsins væru rekin af ríkinu. Það var skoðun mín þá en viðhorf mín hafa breyst með árunum. Ég segi það eins og er. (Gripið fram í: Iðnrh.: Og hár þitt gránað.) Og hár mitt gránað þó að hæstv. iðnaðarráðherra geti ekki sagt hið sama um sitt.

Það sem skiptir mestu máli, og kom svo greinilega og vel fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, þegar við töluðum um almannaþjónustu eins og t.d. sjúkrahús, að hlúa að öldruðum, menntun og svo mætti lengi telja, hlýtur að vera sú grundvallarhugsun að hver einasti þegn landsins hafi aðgang að þessari þjónustu án tillit til efnahags. Verður það að vera svo að ríkið eigi alla heilbrigðisþjónustuna? Verður ríkið að eiga alla skóla? Verður ríkið að eiga alla bíla sem búa til vegi landsins? Er það þannig? Það hefur borið við á minni lífsleið að ég hafi talað við gamalt fólk sem vann hjá Vegagerðinni fyrir fjölda ára. Þeir menn unnu hjá ríkinu, þeir voru að vinna hjá Vegagerðinni með skóflur og hjólbörur o.s.frv. Síðan þegar tækin fóru að verða stærri og tæknin að verða meiri komu upp ýmsar spurningar um það hvort ríkið ætti að vera að kaupa vörubíla, hvort ríkið ætti að vera að kaupa jarðýtur og alls konar tæki og tól til að búa til þessi mannvirki. Hver er niðurstaðan í dag? Ríkið lætur gera vegi en á ríkið tækin sem eru notuð til að gera vegina? Nei, verkin eru boðin út og það eru margir sem sækjast eftir því að gera vegina og sinna framkvæmdunum. Það er ekkert athugavert við það að minni hyggju og hef ég nú greinilega snúið frá þeirri skoðun sem ég var að tala um áðan að ríkið ætti t.d. að eiga allar leigubílastöðvarnar í landinu. (Gripið fram í: Góð hugmynd.)

Því segi ég það, herra forseti, að ég tel sjálfsagt að nota undir vissum kringumstæðum tæki markaðarins, aðferðir hins frjálsa markaðar til að veita þjónustu, kaupa þjónustu sem ríkið kaupir en þegnarnir fá endurgjaldslausa. Það er grundvallaratriði. Þetta sjáum við t.d. í öldrunarþjónustu. Elliheimilin á Íslandi eru ekki ríkisrekin elliheimili. Það er aðeins eitt fyrirtæki sem ég er algerlega sannfærður um að sé best borgið í eigu ríkisins og það er Áfengis- og tóbaksverslunin til að reyna að draga sem mest úr þeirri starfsemi, draga eins og hægt er úr útbreiðslu alkóhóls og nikótíns í landinu.

Ég vildi bara koma þessu að og benda á greinargerðina af því að mér finnst athyglisvert að allar þær skýrslur sem vinir vorir í Vinstri grænum eru að vitna til, að því er mér sýnist í fljótu bragði, herra forseti, ég er ekki alveg búinn að þaullesa þetta, benda til þess að það borgi sig alls ekki að einkavæða neitt og því finnst mér hlutleysisblær tillögunnar og sá máti sem tillagan er lögð fram á og kynnt á þinginu ekki koma alveg nógu vel fram með þessu. Kannski eru dæmin bara þannig að engin einkavæðing hafi nokkurn tíma tekist í allri veröldinni.