135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi — Það er svolítið sniðugt að nota orðið ástand í sambandi við þessi mannvirki á Keflavíkurflugvelli — á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Í raun er verið að mæla fyrir bráðabirgðalögum sem sett voru í sumar, 6. júlí 2007, um að fá lagalega heimild til þess að nota raflagnir og rafföng í ástandi sem ekki er viðurkennt að megi gera samkvæmt íslenskum lögum á íslensku landsvæði.

Í fyrsta lagi fagna ég því að herinn og það sem honum tengdist skuli vera farinn úr þessu húsnæði. Ég hygg að ... (Gripið fram í.) Já, frú forseti, það er virkilega. Hversu mjög sem fyrrverandi utanríkisráðherrar börðust fyrir því að halda hernum í landi ... Ég minnist þess til dæmis að (Gripið fram í.) einn frambjóðandi á Suðurnesjum og þingmaður Framsóknarflokksins sem nú tengist starfsemi þarna sagði í blaðaviðtali eitthvað á þá leið að stuðningur við innrásina í Írak hefði verið til að bæta samningsaðstöðuna til að halda hernum í landi. (Iðnrh.: Og hann var gamall herstöðvarandstæðingur.) Já, já, hann var gamall herstöðvarandstæðingur og flokksbróðir utanríkisráðherra — ekki þáverandi en sem var síðast í fyrrverandi ríkisstjórn. Það var því mikið lagt á sig til að halda hernum í landi. Meira að segja voru notuð rök eins og þessi, þ.e. að styðja innrásina í Írak til þess að bæta samningsaðstöðu sína til þess að halda hernum í landi. (Gripið fram í: Er herinn ...?) Mannvirki hersins. Það er visst fagnaðarefni að herinn skuli vera farinn þrátt fyrir einbeittan vilja fyrrverandi utanríkisráðherra og reyndar forsætisráðherra til að halda honum í landi þannig að vandamál varðandi þessar húseignir eru í sjálfu sér bara gleðileg séð í því ljósi. (Gripið fram í.) Séð í því ljósi er það mjög gleðilegt … (Gripið fram í: Jákvæður í dag ...) Já, ég er jákvæður í dag varðandi þetta og skil vel vonbrigði fyrrverandi utanríkisráðherra sem börðust með kjafti og klóm til að halda hernum hér í landi.

Viðfangsefnið sem slíkt er gott. Ég minnist ræðu sem ég flutti einmitt þegar verið var að ræða um að hugsanlega færi herinn úr landi. Þá talaði ég í utandagskrárumræðu og lagði til að mannvirkin yrðu einmitt notuð til að stofna friðarháskóla, alþjóðlegan friðarháskóla, stofnun sem beitti sér fyrir eflingu friðar í heiminum í stað hernaðar eins og þessi mannvirki voru notuð til. Þá var ég úthrópaður fyrir að ég væri að spilla hagsmunum þjóðarinnar með því að vera á móti því að láta herinn vera í þessu húsnæði þannig að þetta er mjög ánægjulegt hvað þetta varðar.

Hins vegar verð ég jafnframt að tjá það að það að þurfa að keyra þetta mál í gegn með bráðabirgðalögum finnst mér ansi dapurt. Í ljósi þess að þessar eignir komu í hendur íslenska ríkisins fyrir meira en ári síðan, að mig minnir, kannski fyrir einu og hálfu ári síðan og það var alveg ljóst hvernig þetta væri … (Iðnrh.: Ertu að skamma Valgerði?) Ég er ekki að skamma einn eða neinn. Hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir gerði eins og hún gat til að halda hernum í landi. Mér finnst bara að það verði að gagnrýna það að þurfa að setja bráðabirgðalög um þetta. Við vorum með sumarþing sem stóð frá maílokum og fram undir miðjan júní. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefðu öll mál átt að liggja fyrir þá og geta komið inn á það þing og verið afgreidd eðlilega. En það er skrifað undir þessi bráðabirgðalög rúmum tveim vikum eftir að þing er farið heim. (Gripið fram í: Ég er ekki að flytja þetta mál.) Nei, ég er ekki að horfa … Frú forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir má ekki taka það illa upp þó að ég líti af og til á hana. Það er nú samt svolítið gaman að horfa á aðra þingmenn og ég bið Alþingi virða það mér ekki til hnjóðs á nokkurn hátt þó ég meðal annars horfi á hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. (Gripið fram í.) Ég horfi bara á hana með velþóknun eftir að við höfum losnað við herinn.

En við skulum halda okkur við það alvörumál að hér er verið að flytja frumvarp til staðfestingar bráðabirgðalögum sem hefði átt að vera í lófa lagið að taka fyrir með eðlilegum hætti á vorþingi og ég bara gagnrýni það jafnmikinn skilning og ég sýni því að það þarf að finna lagalegar heimildir til að þessu megi ganga frá eins og lögin mæla þarna fyrir um.

Í annan stað velti ég fyrir mér stöðu þessa húsnæðis. Hvert er eignarhald á því? Hver á þetta húsnæði? Ég velti líka fyrir mér ábyrgð á þeim sem búa í því og koma með sín tæki og tól, þ.e. ef hann reynir síðan ekki að uppfylla íslensk skilyrði ellegar þá að af því geti hlotist slys að vera með tæki sem nota aðra spennu. Af því geta hlotist slys. Ég velti fyrir mér hver skaðabótakrafan sé, hvort hún sé einhver og hvar hún þá lendi — svona öryggin í þessu — og hver beri kostnað af þeim breytingum sem þarna er verið að gera. Hvernig reiknast það inn? Ég hef verið að skoða frumvarp til fjáraukalaga þar sem þetta kemur inn á ýmsum stöðum. Þetta kemur inn undir rekstri utanríkisráðuneytisins, undir liðnum 215, Rekstur fyrrum varnarsvæða við Keflavíkurflugvöll, þar sem er verið að ræða um eignir og annað því um líkt sem tilheyrir.

Síðan heyrir þetta líka undir fjármálaráðuneytið, undir liðnum 985 þar sem er rekstur fyrrum varnarsvæða við Keflavíkurflugvöll. Þar kemur fram að stofnað hafi verið sérstakt þróunarfélag sem annist rekstur svæðisins en það kemur ekki skýrt fram hver á þær eignir og hver hefur þá rétt til þess að selja þær eða kaupa. Ef ég man rétt hefur það verið kynnt á síðustu dögum að hluti af þessum eignum hafi verið seldur. Þetta eru eignir ríkissjóðs og maður veltir fyrir sér fjárlagaheimild til þess að selja þær. Maður veltir því líka fyrir sér í hvaða ástandi þær eru seldar. Uppfylla þær byggingarreglugerðir og lög um byggingar sem verið er að selja á markaði til íbúðar?

Mér finnst ráðstöfun á þessum eignum svolítið flaustursleg. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ef hann þá veit það: Hvernig er eignarhaldi háttað og hvernig er verið að ráðstafa eignarhaldi á þessum húsum? Samkvæmt hvaða lögum og reglugerðum er verið að selja þessi hús sem uppfylla kannski ekki eðlilegar kröfur sem gerðar eru á íslenskum byggingamarkaði til íbúðarhúsnæðis? Er verið að selja húsnæði sem uppfyllir ekki almennar kröfur um íbúðarhúsnæði hér á landi þó að verið sé að veita undanþágu í þessum húsum hvað raflagnir varðar?

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Ég vildi ítreka að ég fagna því að herinn skuli vera farinn úr þessu húsnæði, harma það hins vegar að ríkisstjórnin skuli hafa fallið í þá gryfju að auka aftur hernaðarumsvif hér á landi og auka útgjöld til hernaðar með öðrum hætti. En það er fagnaðarefni að þetta húsnæði skuli vera komið úr notkun hersins og ýmislegt er á sig leggjandi, einmitt hvað meðferð stjórnarskrár varðar, til þess að hreinsa upp eftir hinn erlenda her sem hér hefur verið til óþurftar um allt of langan tíma en er nú farinn. Þrátt fyrir mikla baráttu ráðherra og ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, fyrir því að halda hernum fór hann. Fari hann vel og komi aldrei aftur.