135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:56]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nú að hnífurinn standi ekki síður í kú hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Mér sýnist allt hans mál nefnilega einkennast af ákveðnum söknuði. Hann er haldinn því sem heitir á erlendum tungum „nostalgía“, þrá eftir fortíðinni, því að auðvitað leiddi brottför hersins til þess að heimsmynd hans breyttist og heimsmynd okkar. Munurinn á mér og hv. þingmanni, ríkisstjórninni og að minnsta kosti þessum parti stjórnarandstöðunnar, er sá að við fögnum hinum nýja veruleika og tökumst á við hann. Hv. þingmaður saknar hans, hann vill helst vera rótfastur í tímum kalda stríðsins.

Frú forseti. Allt það sem þarna er að gerast er mjög jákvætt. Hv. þingmaður talar um háskóla, það er verið að búa til háskóla í gömlu herstöðinni. Iðnaðarráðuneytið tekur þátt í því, bæði sjálft og í gegnum Nýsköpunarmiðstöðina, að byggja þarna upp starfsemi á háskólastigi sem tengist orkuútrás og orkurannsóknum. Orkan er hugleikin flokki hv. þingmanns á þessum tímum. Iðnaðarráðuneytið er á næsta ári að senda sendinefnd til Bandaríkjanna til þess meðal annars að ýta undir samstarf af þessu tagi.

Þessu á hv. þingmaður að fagna. Við eigum að fagna því sem er jákvætt. Þarna er verið að byggja upp starfsemi af margvíslegu tagi, hátæknistarfsemi. Þessi nýi staður, þessi ágætu húsakynni sem þarna eru skilin eftir af hernum laða til sín hvers konar starfsemi, stórauknar fjárfestingar utan úr heimi og af hverju er það hægt? Af því að hæstv. viðskiptaráðherra lagði það þó á sig að bera fram þessi umdeildu bráðabirgðalög. Ef ekkert rafmagn væri í þessum húsum hefðum við ekki tilefni til þess að fagna þeirri starfsemi sem þarna er. Horfum á það sem er jákvætt í málinu og það er sú staðreynd að þarna er að byggjast upp þróttmikið atvinnulíf. Það sem Alþýðubandalagið og síðan Vinstri grænir og svo ákaflega margir töluðu um, að ef herstöðin færi mundi skapast rými fyrir jákvætt og þróttmikið atvinnulíf, er að gerast núna. Hv. þingmaður ætti að koma hingað (Forseti hringir.) og slá höndum sínum í fagnaðarlátum yfir þessu. (Forseti hringir.) Atvinnuleysið á Suðurnesjum er að minnka út af þessu. (Forseti hringir.) Við gætum, frú forseti, þakkað hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að hafa sýnt þennan kjark.